Fara í efni

HVER VILL SVARA FYRST?

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 17/18.12.22.
Reglulega erum við minnt á mikilvægi þess að standa vörð um „vestræn gildi“. Svo mikils virði séu þau, okkur svo dýrmæt, að allt sé til vinnandi að vaðrveita þau. Þurfi til þess að heyja stríð þá verði svo að vera.
Látum það síðastnefnda liggja á milli hluta að sinni þótt röksemdafærslan sé varasöm. Mörg verstu voðaverk mannkynssögunnar hafa verið réttlætt með þessum hætti, óljósri upphafningu á eigin ágæti og síðan vísun til þess að tilgangurinn helgi meðalið. Allt verður þannig réttmætt þegar „við“ eigum í hlut.

Vestræn menning hefur vissulega fært okkur margt gott og lengi vel trúðum við því mörg hver að mannkynið væri sífellt að verða siðaðra og dyggðugra, stöðugt á framfarabraut, ekki síst fyrir tilstilli vestrænnar menningar sem hvíldi á boðskap kristinnar trúar um umburðarlyndi og fyrirgefningu, skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi, réttarríki sem vildi réttlæti en ekki hefnd, mannréttindasáttmálum og yfirlýsingum um lýðræði og jafnrétti.

Vandinn er sá að orð og veruleiki fara ekki alltaf saman og veruleikinn tekur auk þess á sig margbreytilegar myndir. Valdhafar brenna vissulega ekki lengur menn á báli fyrir villutrú og rangar skoðanir, fjöldanum til viðvörunar og stundum kannski líka skemmtunar í bland. En gæti verið að ýmis teikn séu á lofti um að skoðanalögregla kunni að vera handan við hornið? Ekki bara í Kína, Myanmar og Rússlandi, heldur einnig í garði þeirra sem mest tala um frelsið sem okkur beri skilyrðislaust bæði til orðs og æðis.
En hver ætlar að leyfa sér að halda því fram að tjáningarfrelsið sé helgur réttur á meðan ritstjóri fréttaveitu á yfir höfði sér 175 ára fangelsisdóm fyrir að upplýsa um stríðsglæpi NATÓ-ríkja? Ólögleg fangavist Julian Assange, fyrrum ritstjóra Wikileaks er áminning um að tjáningarfrelsið er ekki ætlað öllum og þótt heykvíslar sjáist ekki á lofti lifir múgmennska enn góðu lífi.
Það er sitthvað helgi og skinhelgi.

Þótt vestræn menning hafi fært mannkyninu margt gott þá má hroki ekki blinda okkur sýn. Aðrir menningarheimar hafa haft sitt, og sumt ekki síðra, fram að færa. Mahatma Gandhi, frelsishetja Indverja þegar þeir öðluðust sjálfstæði undan evrópsku nýlenduvaldi, var einhverju sinni spurður hvað honum þætti um vestræna menningu. „Já, vestræn mennig“, svaraði Gandhi íhugull, „það væri ágæt hugmynd!“
Snjallt svar en á sinn hátt hrokafullt eða þar til að horft er til þess að þarna er maður að svara fyrir hönd hinna undirokuðu um hvað þeim finnist um kúgara sinn.

Fyrir nokkru átti ég tal við hóp manna frá ríkjum í Asíu og Afríku einmitt um gildi og gildismat. Þeir leiddu talið fljótlega að nýlendutímanum. „Hann er ekki liðin tíð“, sagði einn viðmælandinn sem talaði um ásælni vestrænna auðhringa í hráefni í þróunarríkjum. Þeir valdamenn sem ekki mökkuðu rétt með heimsauðvaldinu heima hjá sér, sagði hann, væru einfaldlega settir af, ef þá ekki teknir af. Og í anda Gandhis bætti hann við, „já, oft heyrir maður sagt yfirgangsöflunum til málsbóta þegar vopnavaldi er beitt til að tryggja yfirráð þeirra, að í húfi sé sjálft frelsið og hin vestrænu gildi. „En ég fæ ekki betur séð en að það sé aðallega verðgildið fremur en hin siðrænu gildi sem baráttan snúist um.“

Hver er þá lærdómur okkar sem teljum að þrátt fyrir allt hafi margt áunnist á framfarabraut mannsandans í okkar hluta heimsins? Lærdómurinn er sá að vesturheimi sé ekki bara hollt heldur lífsnauðsyn að gerast gagnrýninn á sjálfan sig og þá gjarnan skoða eigin orð og gjörðir með auga hins undirokaða.

Taka mætti til umhugsunar það sem Mahatma Gandhi talaði um sem félagssyndirnar sjö:
Sú fyrsta sem bæri að varast sagði hann að væri siðlaus stjórnmál. Svo væri það auðsöfnun án vinnu. Í þriðja lagi skemmtun án samvisku og fjórða syndin og síðan sú fimmta væri þekking án visku og viðskipti án siðgæðis. Sjötta syndin væri vísindi án mennsku og að lokum átrúnaður án fórnarlundar.

Skyldu ráðamenn í okkar heimshluta geta sætt sig við þessa nálgun eða vilja þeir ef til vill halda sig við almennara orðalag? Hvernig væri að þeir útskýrðu nákvæmlega hver þau vestrænu gildi eru sem þeir segjast vilja verja með blóði og stáli.
Hve margir þeirra sem aldrei efast um eigið ágæti skyldu telja sig standast prófraun Gandhis um að ástunda aldrei ósæmileg stjórnmál, að hygla aldrei þeim sem sitja óverðskuldað á miklum auði eða stunda ósiðleg viðskipti?

Hvernig skyldu þeir svara sem tala hvað ákafast um hin vestrænu gildi og segjast tilbúnir að deyja þeim til varnar eða öllu heldur fá einhverja aðra til að deyja fyrir sína hönd?

Hver vill svara fyrst?