Fara í efni

Hver vill einkavæða Gvendarbrunnana?

Fyrir nokkrum dögum hlustaði ég á viðtal við kunnan og ágætan blaðamann í sjónvarpi. Hann sagðist ekki betur sjá og heyra en að "allir" væru komnir á þá skoðun að rétt væri að einkavæða innan grunnþjónustu samfélagsins. Vísað var í ályktanir Alþýðusambands Íslands þar sem talað væri um mikilvægi þess að tryggja mismunandi rekstrarform í heilbrigðiskerfinu og að allir flokkar væru á þessu máli – nema þá Vinstrihreyfingin grænt framboð. Sennilega er nokkuð til í þessu að öðru leyti en því að VG er ekki einangraður minnihluti í þessu efni heldur samstiga þorra þjóðarinnar. Jafnan þegar spurt hefur verið í skoðanakönnunum hvort fólk vilji einkavæða heilbrigðisþjónustuna eða stoðkerfið, þ.e. rafveitur, skólp og vatnsveitur þá hefur yfirgnæfandi meirihluti verið þeirrar skoðunar að þessir grunnþættir samfélagsins ættu að vera í almannaeign og undir stjórn almannavalds. 

Staðreyndin er sú að það er minnihluti innan stofnanaveldis landsins sem er þeirrar skoðunar að allt beri að setja á markað. Ég er til dæmis sannfærður um að í þjóðfélaginu er ekki meirihluti  fylgjandi að heimila einkavæðingu Gvendarbrunnanna, vatnsbóls Reykjavíkur. Á Alþingi var hins vegar meirihluti fyrir því að veita þessa heimild. Aðeins VG vildi líta á vatnið sem almannaeign, sem ekki væri heimilt að einkavæða og selja. Það ætti ekki að vera háð meirihlutavilja á einu kjörtímabili hvernig farið væri með slíka eign. Það ætti nánast að vera grunnmúrað í stjórnarskrá landsins að óheimilt væri að svipta almenning eignarhaldi á vatnsbólum. Undir lok þingsins var harkalega tekist á um þetta efni.

Sjálfstæðisflokkur var tilbúinn að veita slíka heimild.
Framsóknarflokkur var tilbúinn að veita slíka heimild.
Samfylking var tilbúin að veita slíka heimild.
Frjálslyndir tjáðu sig ekki sérstaklega um málið og afstaða þeirra því óljós.

Aðeins VG vildi ekki láta undan ágangi peningamanna sem horfa vonaraugum í vatnsbólin, vitandi að þar er sennilega dýrmætasta auðlind framtíðarinnar

Ég er nokkuð sannfærður um að í þessu máli talar VG máli meirihluta þjóðarinnar. Skyldi Sigmundur Ernir ritstjóri DV vera sammála mér um þetta, því sá var maðurinn í sjónvarpsspjallinu? 

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þetta verði að taka til rækilegrar umræðu áður en gengið er til kosninga. Kjósendur eiga heimtingu á að vita hvaða afstöðu stjórnmálaflokkar og einstakir þingmenn hafa til slíkra grundavallarmála.