Hver vægir og hvar er vitið?
Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson komu saman fram í fjölmiðlum sunnudagskvöldið 4. júlí til að (reyna að) skýra fyrir þjóðinni síðustu uppákomu hjá þeim tvímenningum, að þessu sinni fjölmiðlafrumvarpið í nýjum umbúðum en nánast sama frumvarp. HÁ vitnaði í gamla íslenska málsháttinn af þessu tilefni og sagði: "Sá vægir sem vitið hefur meira". Síðan hefur það verið viðfangsefni þjóðarinnar að reyna að átta sig á hver er að vægja og ekki er það mönnum síður ráðgáta að grafast fyrir um hvar vitið sé að finna í Stjórnarráði Íslands. Auðvitað þarf að skoða þessi mál öll í góðu tómi og verður eflaust viðfangsefni lögfræðinga og sagnfræðinga og kannski einhverra fleiri fræðinga um ókominn tíma.
"Við hefðum klárað það dæmi"
Að sjálfsögðu voru þeir tvímenningar spurðir um stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Forsætisráðherrann kvað hana nú ekki hafa haldið fyrir þeim vöku því ekki hefði stjórnarskráin reynst þeim félögum farartálmi: "Ja, það var ákveðið að fara þessa leið vegna þess að það er augljóst að þó að við hefðum náð samkomulagi um fyrirkomulag á atkvæðagreiðslu, flokkslega það er reyndar þannig að það var ekki nokkurt vandamál, við hefðum klárað það dæmi en eins og lögfræðiskýrslan ber með sér, það stendur að það sé djúpstæður ágreiningur lögfræðinga ekki bara um 26. grein stjórnarskrárinnar sem var nú beitt, heldur einnig um það þó flestir telji heimilt að setja ákveðin skilyrði fyrir atkvæðagreiðslunni þá eru mjög deildar meiningar um það og í rauninni ekkert skrifað og ekkert þekkt, hvorki hér á landi né annars staðar, af öryggi sem er vísbending um það með hvaða hætti að fara með þetta mál. Þannig að menn losa sig og þjóðina út úr þeim ógöngum að vera að fara með þetta mál fram í fullkominni óvissu. Nefndin segir að 26. greinin eins og hún sé núna sé bersýnilega mikil vandræðagrein, hafi ekkert verið hugsuð og er algjörlega bráðabirgðagrein, bersýnilega. Þannig að með þessu að þá hefst hvoru tveggja að lögin lengja aðlögunarfrestinn og eins hefur þjóðin tækifæri til að koma að málinu með beinum hætti áður en þau ganga endanlega í gildi."
Þetta er forsætisráðherra Íslands sem hér er að tjá sig. Ég ætla ekki að þreyta lesendur á að tína upp mótsagnirnar sem hér er að finna. Annars vegar er nú ekki mikið mál fyrir þá félaga að klára þetta "dæmi" gagnvart eigin samvisku eða "flokkslega". Hins vegar er okkur sagt að að stjórnarskrárákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslu sé mikil "vandræðagrein" og það er ekki þekkt "hvorki hér á landi né annars staðar" hvernig eigi að fara með þessa grein. Ég leyfi mér að skjóta hér inn í hvort þetta sé ekki stjórnarskrá Íslands sem við erum að tala um, hvort önnur ríki, "aðrir staðir" blandist inn í þetta mál. Í framhaldinu gerist það að þeir félagar sem voru ekki í nokkrum vandræðum að afgreiða stjórnarskrána, "klára það dæmi", eru komnir í nokkra óvissu.
Góð ráð dýr
Nú var brugðið á það ráð að hverfa frá allri girðingavinnu og "losa sig og þjóðina út úr þeim ógöngum að vera að fara með þetta mál fram í fullkominni óvissu". Áður en skilið er við Davíð Oddsson, forsætisráðherra þjóðarinnar, í þessum viðtölum er rétt að minnast á eina staðhæfingu enn, nefnilega að "flestir telji heimilt að setja ákveðin skilyrði fyrir atkvæðagreiðslunni". Þetta eru ósannindi. Jafnvel nefndin sem þeir Davíð og Halldór skipuðu hafði um þetta efasemdir, töldu það "ekki vafalaust" að slíkt stæðist stjórnarskrá þótt þeir segðu jafnframt að þeim þættu efnislega rök fyrir slíkum skilyrðum. Það er hins vegar allt annar handleggur. Hver skyldi vera skýringin á því að forsætisráðherra Íslands leyfir sér að bera annað eins á borð?
Halldór Ásgrímsson var forsætisráðherranum ekki síðri í þessum viðtölum. Nú þarf ekki þjóðaratkvæðagreiðslu af því að þingkosningar fara fram áður en lögin taka gildi: " Það liggur alveg ljóst fyrir að það verða kosningar í landinu áður en það þessi lög taka gildi." Þá gefst þjóðinni með öðrum orðum færi á að kjósa um lögin, eða með orðum formanns Framsóknarflokksins: "Nýr meirihluti á Alþingi gæti að sjálfsögðu breytt lögunum ef að hann vildi það og þar með er þjóðaratkvæðagreiðsla orðin ónauðsynleg núna vegna þess að lögin eru tekin úr gildi." +
Það er nefnilega það; nýr meirihluti getur breytt lögunum, enda skal stjórnarandstöðunni nú boðin aðkoma að nefnd sem setjist yfir hugsanlegar breytingar. En hvers vegna setja lögin núna, hvers vegna ekki gefa nefndinni svigrúm til starfa? Jú það er vegna þess að fyrirtækin verða að vita hvað bíður þeirra. Já en átti ekki að gefa svigrúm til breytinga...? Þetta síðasta var sú spurning sem ég hefði viljað láta spyrja. Það var ekki gert. Það var hins vegar spurt hvort ríkisstjórnin hefði verið beygð í málinu. Halldór kvað svo vera: "Það getur vel verið að menn vilji orða það þannig. Sá vægir sem vitið hefur meira er stundum sagt og ef menn vilja segja að við höfum verið beygðir í þessu þá er það allt í lagi mín vegna."
Sama frumvarpið
En þetta er nánast sama frumvarpið. Það eina sem hefur gerst er ný tilraun til að hafa stjórnarskrárvarin lýðréttindi af þjóðinni. Í framhaldinu hlýtur maður að spyrja hver hafi verið beygður og hvar sé að finna umrætt vit? Sannleikurinn er einfaldlega sá að Framsóknarflokkurinn hefur gengist inn á það með Sjálfstæðisflokknum að fótumtroða stjórnarskrána, lýðræðið og heilbrigða skynsemi. Í því er engin vitglóra. Þvert á móti er ríkisstjórnin að gerast sek um aðför að lýðræðinu í landinu.
.