Fara í efni

Hver er stefna krata í bankamálum?

Birtist í Mbl
Eftir að Finnur Ingólfsson viðskiptaráðherra kvað upp úr með það í lok mánaðarins að til greina kæmi að selja ríkisbankana úr landi hefur talsvert farið fyrir yfirlýsingum stjórnmálamanna um þessar hugmyndir og er sannast sagna erfitt að átta sig á afstöðu margra og þá ekki síst talsmanna Alþýðuflokksins. Sá sem þetta ritar greiddi atkvæði gegn því á Alþingi að ríkisbankarnir yrðu gerðir að hlutafélögum en var fylgjandi hugmyndum um að kanna sameiningu á Landsbanka og Búnaðarbanka í einum öflugum banka í eigu þjóðarinnar. Ekki var mikið gefandi fyrir yfirlýsingar viðskiptaráðherra þess efnis að fyrst og fremst væri um formbreytingu að ræða og þegar og ef bankarnir yrðu seldir yrði kannað hvort almannasamtök eða íslenskir lífeyrissjóðir væru ekki gráupplagðir eigendur. Nú er komið á daginn sem reyndar alltaf var fyrirsjáanlegt að bankarnir verða seldir og helst til útlanda: „Það er íslenskum fjármagnsmarkaði mikilvægt að fá erlenda fjárfesta til þátttöku í þessu starfi,“ segir bankamálaráherrann án þess þó að færa haldbær rök fyrir sínu máli.

En það er fleirum kappsmál að koma eignarhaldinu á ríkisbönkunum út fyrir landsteinana. Í blaðagrein í dagblaðinu Degi 23. júlí síðastliðinn segir Ágúst Einarsson alþingismaður um stefnu Alþýðuflokksins: „Fulltrúar jafnaðarmanna í efnahags- og viðskiptanefnd, Jón Baldvin og undirritaður, lögðu til við breytingu ríkisbankanna í hlutafélög að annar bankinn yrði einkavæddur þannig að stór hluti hlutafjárins yrði seldur erlendum banka.“ Síðan heldur þingmaðurinn áfram og útlistar nauðsyn þess að dreifa eignarhaldinu helst til allra landsmanna á svipaðan hátt og Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur talað fyrir.

Nú er þetta afstaða sem nauðsynlegt er að fái málefnalega umræðu. Vandinn er sá að úr sama ranni koma einnig yfirlýsingar sem virðast ganga í þveröfuga átt. Í sjónvarpsfréttum 3. ágúst varar Sighvatur Björgvinsson, formaður Alþýðuflokksins, við sölu á ríkiseignum og segir að sala á Landsbankanum úr landi sé eins og olía á eld, því með því móti sé „…verið að flytja inn eyðslueyri fyrir ríkissjóð.“

En hvers vegna er verið að vekja máls á þessu? Vegna þess að hér er verið að fjalla um eitt helsta átakamál í íslenskum stjórnmálum, markaðsvæðingu ríkisstofnana og sölu á almannaeignum innan lands og utan. Það á yfirhöfuð ekki að líðast að menn tali tveim tungum í stjórnmálum, segi eitt í stjórnarandstöðu en geri annað í stjórn. Tali gegn einkavæðingu á ríkiseignum eins og þingmenn Framsóknarflokksins gerðu í stjórnarandstöðu en einkavæði síðan þegar þeir eru komnir í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Á sama hátt þarf Alþýðuflokkurinn og síðan í framhaldinu nýja krataframboðið að sjálfsögðu einnig að skýra stefnu sína í bankamálum á afdráttarlausan hátt.

Ein helsta meinsemd íslenskra stjórnmála er ótrúverðugleiki. Þegar kemur að skurðarpunkti íslenskra stjórnmála, markaðsvæðingu samfélagsins, verða stjórnmálamenn að tala skýrt. Það verður gengið til kosninga innan fárra mánaða. Uppstokkun er hafin í íslenskum stjórnmálum. Nú verður spurt um stefnu.