Fara í efni

HVER ER GÓÐUR STÓRI BRÓÐIR?

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 25.11.12.
Nýlega varð ríkið að hlaupa undir bagga til að forða því að hlutafélagið sem rekur Farice og Danice -sæstrengina lenti í hremmingum. Ekki var í boði að stefna fjarskiptatengingu Íslands við umheiminn í voða. Ef fjarskiptin eru rofin gengur margt úr skorðum.
Fjarskiptum og internetinu í nútímasamfélagi má jafna við heilabú og taugakerfi lífveru. Í styrjöldum framtíðarinnar - takist okkur ekki að útrýma þeim með öllu - verður án efa allt kapp lagt á að kippa þessum lífæðum úr sambandi, eða sem mun hugsanlega þykja enn fýsilegri kostur, ná valdi á þessum kerfum.
Þegar grunnkerfi í fjarskiptaþjónustu eru smíðuð leggja ríki stöðugt meira upp úr því að engir komi að því verki sem kunni að hafa annarlegra hagsmuna að gæta - gangi til dæmis erinda stórvelda.
Í þessu ljósi er ekki undarlegt að farið sé að líta á netöryggismál sem fullveldismál þjóða. Þetta ræður því líka að við erum fyrir okkar leyti að styrkja okkur hvað varðar þekkingu og yfirsýn á þessu sviði með stofnun netöryggissveitarinnar sem vistuð er hjá Póst- og fjarskiptastofnun.
En við getum ekki verið sjálfum okkur nóg að öllu leyti, við þurfum að sækja vit, þekkingu og reynslu erlendis frá. En hvert eigum við að snúa okkur? Til Bandaríkjanna, hefðum við treyst Bush til að  annast öryggisgæslu fyrir tölvukerfi ríkisins, með lúkurnar þar inni í hverri tölvu, eða Obama? Það kom reyndar einhvern tímann upp að aðstoð var boðin úr þeirri átt á nákvæmlega þessu sviði. Eða Pútín? Væri hann góður stóri bróðir? Kannski Kína eða Þýskaland?
Á fundi norrænna ráðherra almannavarna sem haldinn var í Reykjavík í vikunni voru þessi mál rædd. Við hlýddum á afar fróðlegt erindi stjórnanda netöryggismála í Danmörku. Hann sagði að úti í hinum stóra heimi væri litið á Norðurlöndin sem eina, nánast einsleita, heild. Ekki væri gerður greinarmunur á löndunum. Og þá væri spurningin hvort ekki væri rétt að við efldum samstarf okkar í millum á þessu sviði. Um það voru fulltrúar allra Norðurlandanna einhuga.
Einhver kann að spyrja hvers vegna svo hafi verið, en svarið liggur nánast í augum uppi. Það er vegna þess að Norðurlöndin eru í okkar augum almennt traustsins verð. Þau leggja öll mikið upp úr lýðræðislegum hefðum, eru  laus við heimsyfirráða-bakteríuna og eru vinsamleg hvert í annars garð.
Allt þetta kom ágætlega fram í öðru umræðuefni á fundinum: Skýrslu sem út kom í ágúst síðastliðnum um fjöldamorðin í Osló 22. júlí í fyrra. Fram kom að Norðmenn eru nú lagstir í mikla sjálfsskoðun til að finna allar hugsanlegar brotalamir í öryggiskerfum sínum en jafnframt eru þeir staðráðnir í því að í viðleitni til að gera þjóðfélagið öruggara skuli lýðréttindum aldrei fórnað. Það er þessi afstaða sem gerir Norðmenn og hinar Norðurlandaþjóðirnar einnig að eftirsókarverðum samstarfsaðilum þegar kemur að því að verja heilabú og taugakerfi þjóðar.
Mín niðurstaða er sú að í erlendu samstarfi eigum við eftir sem áður að horfa til Norðurlandanna. Þau vilja byggja á opnu samfélagi, lýðræði og svipuðum grunngildum og við. Þess vegna eigum við samleið.