Fara í efni

Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til mannréttindabrota í Palestínu?

Birtist í DV 13.10.2003
Ljóst er að ástandið í Palestínu er löngu orðið geigvænlegt – en versnar þó enn. Undarlegt er hve dofinn heimurinn virðist vera gagnvart þeirri atburðarás sem við verðum nú vitni að. Eftir loftárásir ísraelskra sprengjuflugvéla á flóttamannabúðir Palestínumanna í Sýrlandi var haft eftir Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra Íslands, að hvorki Ísraelsmenn né Palestínumenn hefðu tekið skref í átt til friðar. Og orðrétt segir hann í Fréttablaðinu daginn eftir loftárásirnar: " Öllum má vera ljóst að þróun þessara mála er háð því að Palestínumenn taki betur á öryggismálum heima fyrir og taki betur á öfgamönnum og síðan að Ísraelsmenn vinni betur í samræmi við þær áætlanir sem hafa verið gerðar og það eru engir nema Bandaríkjamenn sem geta veitt nauðsynlegan þrýsting í þeim efnum. Ísraelsmenn taka lítt mark á öðrum í því sambandi." 
Sama dag var utanríkisráðherra krafinn skýringa á Alþingi og skánaði þá tónninn heldur því nú gagnrýndi hann loftárásirnar  en sagðist þó jafnframt skilja "réttláta reiði" Ísraela vegna nýafstaðinnar sjálfsmorðsárásar í Haifa.

Halldór samtóna Sharon og Bush

Þegar grannt er skoðað virðist mér afstaða utanríkisráðherra Íslands mjög samtóna þeim Sharon í Ísrael og Bush Bandaríkjaforseta – sem því miður er engin nýlunda. Báðir segjast þeir Sharon forsætisráðherra Ísraels og Bush Bandaríkjaforseti leggja mikið upp úr friðarferlinu sem nefnt hefur verið Vegvísir til friðar. En þetta verði þó að gerast að einu skilyrði uppfylltu: Að Palestínumenn "taki betur á öryggismálum heima fyrir og taki betur á öfgamönnum". Í krafti "réttlátrar reiði" eru síðan gerðar skipulegar árásir með sprengjuregni á flóttamannabyggðir og þéttbýl svæði Palestínumanna. Sú staðreynd þykir mér vera augljós að ráðandi öflum í Ísrael er þegar allt kemur til alls ekkert um Vegvísi til friðar gefið enda tala verk þeirra sínu máli:
* haldið hefur verið áfram skipulegum manndrápum á forystumönnum Palestínumanna
* haldið er áfram að reisa múra og girðingar utan um byggðir Palestínumanna * haldið er áfram landtöku á svæðum Palestínumanna
* löglega kjörinn forseti landsins – réttkjörinn í lýðræðislegum kosningum og af þjóðþingi Palestínumanna, viðurkenndur sem slíkur af alþjóðasamfélaginu – er lýstur brottrækur úr eigin landi og að auki réttdræpur
* svo alvarlegt er ástandið orðið að stjórn Palestínumanna hefur nú lýst yfir neyðarástandi og enn á ný sent ákall til heimsins um hjálp.

 Öryggisráðið vill mótmæla, en ...

Viðbrögð Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna við árásunum voru þau að 14 af 15 fulltrúum í ráðinu greiddu atkvæði með því að árásirnar yrðu fordæmdar. Bandaríkjamenn beittu hins vegar neitunarvaldi eins og fyrri daginn rétt eins og þeir gerðu þegar borin var síðast upp tillaga í Öryggisráðinu um að alþjóðlegt friðargæslulið undir stjórn SÞ yrði sent á vettvang saklausum borgurum til varnar.
En hvað er til ráða og hvernig ber okkur að bregðast við? Það er nokkuð til í því hjá Halldóri Ásgrímssyni að þeir sem hafa ráðin í sinni hendi í þessu máli eru endanlega Bandaríkjamenn og þannig hefur það verið í rúmlega hálfa öld.
Þegar Ísraelsríki var stofnað um miðja tuttugustu öldina var gert ráð fyrir því að Ísraelsmenn fengju rúmlega helming Palestínu (55%). En þegar upp var staðið eftir átökin sem þá urðu, höfðu Ísraelsmenn hins vegar rúma þrjá fjórðu hluta landsins (78%) á sinni hendi. Og eftir sex daga stríðið 1967 höfðu þeir lagt allt landið undir sig og til viðbótar stór svæði frá öllum nágrannaríkjum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað gert ályktanir um að Ísrael beri að skila þessum herteknu svæðum og friðarviðræður og samingar sem gerðir hafa verið grundvallast á þeim. En Ísrael þverskallast við og bætir um betur með því að halda áfram landtöku og flytja fólk inn á herteknu svæðin þvert á alþjóðalög. Þá sjaldan að Ísraelum hefur verið þröngvað að samnningaborði hefur aðferð þeirra jafnan verið á einn veg: Að teygja viðræður á langinn og krefjast í sífellu samingaviðræðna um atriði sem áður hafði verið samið um. Á sama tíma halda landtökubyggðirnar áfram að stækka, múrar og girðingar rísa og til verða gettó sem fólk hlýtur að flýja smátt og smátt enda útilokað að mynda sjálfstætt ríki á þessum grunni. Niðurstaðan er þjóðernishreinsun.

Kynþáttamúrinn

Á síðustu árum hafa verið gerðar margar tilraunir til að koma á friði, svo sem með samningaviðræðunum sem kenndar voru við Madrid og síðar Osló og nú er það Vegvísir til friðar. En sem áður segir eru engin teikn á lofti um að hið raunverulega deilumál, -viðurkenning á sjálfstæðu ríki Palestínumanna, - sé að leysast. Hið gagnstæða virðist þvert á móti uppi á teningnum. Risavaxinn steinmúr, Apartheid-múrinn, sem svo hefur réttilega verið nefndur, nær langt inn á hernumdu svæðin, sem byggð eru Palestínumönnum. Því fer fjarri að múrinn fylgi hinum alþjóðlega viðurkenndu landamærum. Að vestanverðu eru stór svæði tekin af Palestínumönnum og að austanverðu er gert ráð fyrir að múrinn liggi inn í miðju landi og hvergi nærri landamærum Jórdaníu. Með þessu móti eru Ísraelar að bæta við sig helmingnum af Vesturbakkanum. Nú stefnir í að svæðið ætlað Palestínumönnum verði aðeins um tíundi hluti af upphaflegri Palestínu!
Þau svæði sem ekki eru umlukin múrum eru girt rafmagnsgirðingum. Gasasvæðið er nú með öllu lokað af. Annars staðar getur fólk ekki farið óhindrað á milli bæja, sótt læknisþjónustu eða atvinnu. Nú er svo komið að atvinnuleysi nemur 60-70 prósentum og býr samsvarandi hlutfall við sára fátækt.

Hin opinbera réttlæting kúgunar

Að sjálfsögðu er það óverjandi að fara svona með fólk, en hin opinbera réttlæting er að Palestínumenn vilji ekki taka á öryggismálum og öfgamönnum í sínum hópi. Allir sem hafa fyrir því að kynna sér málin vita sem er, að hér er í reynd verið að gera kröfu sem ekki er hægt að framfylgja. Um leið og illa búnar og vanmáttugar öryggissveitir stjórnar Palestínumanna réðust skipulega gegn þeim hópum sem halda uppi andspyrnu við hernámið myndi blossa upp borgarastyrjöld í Palestínu. Staðreyndin er sú, að ráðandi öfl í Palestínu, ríkisvaldið þar,  hefur ekki burði til að hafa hemil á öllum hópum Palestínumanna. Þetta vita þeir sem vilja Vegvísinn feigan og hafa engan áhuga réttlátum friði.
Eina leiðin til að kveða harðlínuöfl niður er á hinn bóginn að sýna árangur raunverulegs friðarvilja. Til að svo megi verða er augljóst að virða þarf landamæri og stofnanir Palestínu, láta af árásum og gefa Palestínumönnum frið til að lifa sínu lífi Með öðrum orðum, ríkin þurfa að sýna hvort öðru velvilja og traust. Þetta er lykilatriði.  

Ríki láti ekk stjórnast af reiði

Að sjálfsögðu er skiljanlegt að fólk sem missir sína nánustu í sjálfsmorðsárás fyllist "réttlátri reiði" og láti tilfinningarnar stjórna sér. Til ríkisins gerum við hins vegar kröfur um mikla yfirvegun við slikar aðstæður, reiði á ekki að stýra för. Og til eru þeir báðum megin víglínunnar, sem misst hafa sína nánustu en myndað hópa til stuðnings hvorir öðrum. Þeir eru staðráðnir að láta reiðina ekki yfirbuga sig heldur tala saman og öðlast skilning og vináttu í sorginni. Þessu fólki er ljóst að átökin leysast ekki með aukinni kúgun og grófara ofbeldi. Það er meira en sagt verður um Sharon og Bush. Þeir virðast ekkert sjá annað og ekki kunna neitt annað.
Hvað íslensku ríkisstjórnina varðar þá hlýtur hún nú að þurfa að gera rækilega grein fyrir afstöðu sinni. Við þessar aðstæður er að mínum dómi aðeins eitt til ráða: Að beita sér af alefli fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar sendi friðarsveitir til Palestínu. Ekki til árása eða hefnda í krafti "réttlátrar reiði", heldur til að verja saklaust fólk gegn ofbeldi.