Fara í efni

Hver er ábyrgð ríkisstjórnar og Landsvirkjunar?

Birtist í DV 26.09.2003
Miklar deilur hafa geisað undanfarnar vikur austur við Kárahnjúka, að þessu sinni ekki vegna fyrirsjáanlegra náttúruspjalla. Nú er deilt um brot á kjarasamningum og íslenskri vinnulöggjöf, slæmum aðbúnaði verkamanna og yfirgangi sem þeir eru beittir af hálfu fjölþjóðarisans Impregilo og undirverktaka hans. Því miður var allt þetta fyrirséð.
Viðskiptahættir Impregilo eru þess eðlis að um heim allan hefur þetta fyrirtæki skilið eftir sig slóða svika og spillingar. Fyrir því var gerð ítarleg grein á Alþingi og í skrifum áður en Landsvirkjun og ríkisstjórn gengu frá samningum við fyrirtækið.

Ríkisstjórn og Landsvirkjun búa í haginn

Fyrir ríkisstjórnina var lykilatriði að ganga frá samningum um verkið í góðan tíma fyrir kosningar. Til þess þurfti að sýna fram á að áætlanir Landsvirkjunar um virkjanakostnað fengju staðist. Ein leiðin til þess var að ná framkvæmdakostnaði verulega niður – á pappírnum ef ekki verkaðist betur til. Líklegt þótti að norrænu fyrirtækin, sem áhuga sýndu á verkinu, myndu bjóða mun hærra en áætlanir Landsvirkjunar gerðu ráð fyrir.  Öðru máli gegndi um Impregilo. Þar á bæ reyndust menn til í þann skollaleik sem Landsvirkjun bauð upp á með því að láta hugmyndir sínar um kostnaðarverð berast bjóðendum fyrir tilboðsopnun.
Þegar tilboð í verkin voru opnuð 6. desember 2002  kom í ljós að tilboð Impregilo var einasta tilboðið sem var í “samræmi” við áætlanir Landsvirkjunar. Að tilkynna fyrirfram um kostnaðaráætlanir verkkaupa hefur aldrei gerst áður í sögu Landsvirkjunar og tíðkast einungis í þeim löndum sem Íslendingar hafa hingað til ekki viljað láta bendla sig við.
Upphaflega hafði einungis 6 aðilum verið boðið að bjóða í verkið. Þetta var skýrt með því að um mjög viðamiklar og sérhæfðar framkvæmdir væri að ræða. Svo kann að vera. En þegar nær dró útboðsopnunardegi var ljóst að skörð voru að myndast í þessum fámenna tilboðshópi. Daginn fyrir tilboðsopnun greindi DV frá því að fjórir aðilar berðust um 40 milljarða verk! Sama dag greindi Morgunblaðið frá því að eitt stærsta fyrirtæki Svíþjóðar, NCC, teldi Kárahnjúkaverkið of áhættusamt og félli því frá því að gera tilboð.
Landsvirkjun fylgdi greinilega þeirri línu ríkisstjórnarinnar að allt væri til vinnandi að keyra kostnaðarverðið niður – tímabundið ef ekki vildi betur,  til að láta líta svo út að framkvæmdin fengi staðist. Þetta varð hins vegar til þess að ábyrg fyrirtæki í nágrannalöndunum urðu framkvæmdinni fráhverf enda hér um að ræða  atferli  sem gjarnan er kennt við sum lönd í öðrum álfum.
Impregilo kippti sér að sjálfsögðu ekki upp við þessar “meldingar”, enda vanir menn sem þar ráða ríkjum. Fyrirtækið hafði áður farið  fram á viðbótarfrest, sem það að sjálfsögðu fékk, svo það mætti  komast sem næst því að uppfylla óskir væntanlegs kaupanda!
En lítum á þau tilboð sem fram komu.

Tilboð í göng og stíflu   

Tilboðin 6. des. 2002 hljóðuðu þannig (án vsk) upp á :                                                 
                                                        Stífla        Göng  Samt. í  milljörðum kr.
Impregilo :                                    15,7          19,7          35,4 – 3% = 34,3
Ístak og erl. Samst.aðilar           21,7          37,2         58,9
ÍAV og erl. Samst.aðilar              27,6          29,0         56,6
Kostnaðaráætl “sérfræðinga”   19,1           21,0         40,1

Eins og af ofanskráðu má sjá, var eingöngu tilboð Impregilo í samræmi við kostnaðaráætlanir Landsvirkjunar.  Að láta nú sem mönnum komi á óvart hvernig málum er komið við Kárahnjúka er annað hvort einfeldni eða óskammfeilni af hæstu gráðu. Tilboð Impregilo er eins og sjá má um 40% lægra en annað lægsta tilboðið hljóðaði upp á. Hvernig ætluðu menn að þetta “virta” fyrirtæki hyggðist framkvæma verkið öðru vísi en með þeim bolabrögðum sem við erum nú að kynnast? Augljóst mátti vera frá upphafi að Impregilo reyndi að gera tvennt til að bæta sinn hag. Annars vegar að keyra niður framkvæmdakostnað, þar á meðal kostnað við laun og aðbúnað. Hins vegar að gera kröfur vegna ófyrirséðra atvika. En það er nokkuð sem við eigum eftir að kynnast síðar.

Verkalýðshreyfingin stendur einhuga  

Stéttarfélögin hafa unnið frábært starf á undanförnum vikum til varnar verkamönnum við Kárahnjúka. Þau krefjast þess að öll kjör og samningar verði gerð opinber; allt sett upp á borðið. Auk þess hafa þau krafist úrbóta á aðstöðu fyrir starfsmenn en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur hún verið mjög slæm. Í upphafi hafi ekki verið gert ráð fyrir salernum á sumum vinnusvæðunum og í matarskálum hafi tugir, jafnvel hundruð manna þurft að sameinast um eitt salerni! Síðan þekkjum við frásagnir af kjörum erlendu verkamannanna.
Verkalýðshreyfingin í landinu stendur einhuga að baki fulltrúum stéttarfélaganna við Kárahnjúka og krefst tafarlausra úrbóta. Menn beina nú sjónum sínum að ríkisstjórninni og þeim ráðherra sem er í fyrirsvari fyrir þennan málaflokk, félagsmálaráðherra. Á hendur honum er reist sú krafa að íslenskir kjarasamnigar og íslensk vinnulöggjöf sé virt. Ella beri honum að grípa til aðgerða.
Það er hins vegar mikil einföldun að gera núverandi félagsmálaráðherra að höfuðábyrgðarmanni í þessu máli. Þræðirnir liggja lengra aftur því allt var þetta fyrirsjánalegt.
Það verður því miður ekki sagt um Landsvirkjun og ríkisstjórn Íslands að þessir aðilar hafi ekki vitað hvað þeir gerðu. Við erum að verða vitni að afleiðingum vel yfirvegaðra ákvarðana. Því miður er það svo.