Fara í efni

HVER Á AÐ BORGA?

MBL -- HAUSINN
MBL -- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 23.02.14.
Jafnvel þótt Jón Gnarr borgarstjóri sé ekki kominn með ísbjörninn í Húsdýragarðinn í Reykjavík eins og hann lofaði, þá er gaman að koma þangað í fylgd með börnum. Það reyndi ég nýlega. Þarna eru selir, refir og minkar og síðan öll íslensk húsdýr. Gamlir dúfnabændur sjá þarna allar flottustu dúfurnar sem við strákarnir á Melunum þekktum í þaula í gamla daga, ísara, toppara og nunnur. Og síðan ýmsar furðutegundir  sem ég minnist ekki að hafa séð í jafnvel allra þróuðustu dúfnakofum Reykjavíkur upp úr miðri síðustu öld.   
Í Húsdýragarðinum er öllu viðhaldið eins vel og best er á kosið og ef stúlkan í miðasölunni er dæmigerð um  starfsfólkið, þá er það einkar alúðlegt. Allt er hreint og fínt og greinilegt að dýrunum líður vel. Falleg á feld og fiður og hreinlæti augljóslega í hávegum haft.
Allt kostar þetta fyrirhöfn og peninga. Hvaðan eiga þeir að koma? Ég velti því fyrir mér hvort rétt er að selja aðgang. Tveir fullorðnir, pabbi og mamma eða afi og amma með ungum börnum borga 1500 krónur, meira ef börnin eru orðin 5 ára.
Ekki stór upphæð kann einhver að segja, en það gerir  sex þúsund krónur á mánuði ef farið er um hverja helgi. Og jafnvel 1500 krónur á mánuði skipta máli fyrir lágtekjufólk. Það er staðreynd sem ekki allir gera sér grein fyrir. Lágtekjufólk  hefur ekkert aflögu eftir að borga húsaleigu, fæði og föt. Ekkert er afgangs fyrir afþreyingu. Hvað börnin varðar getur afþreying náttúrlega verið margvísleg utan heimilis, heimsóknir til fjölskyldu, fara niður í fjöru, í göngutúr, á róló og síðan eru það söfn og náttúrlega stórverslanirnar sem fyrir löngu eru búnar að átta sig á því hver segull leiksvæðin í  búðunum er fyrir viðskiptavini í borg þar sem afþreying er takmörkuð fyrir börn. Húsdýragarðurinn hefur allt þetta, býður upp á endalaus ævintýri með dýrum og leiktækjum. En þar kostar inn.
Sjálfum finnst mér að almannarýmið eigi að vera án gjaldtöku . Þar á ég við almenningsgarða, listasöfn og bókasöfn -  öll opinber höfuðsöfn. Ég hallast líka að því að Húsdýragarðurinn eigi að vera gjaldfrjáls. Þangað á fólk að geta farið óháð efnahag, ekkert síður en að Gullfossi, Dettifossi og Geysi - og að sjálfsögðu Kerinu í Grímsnesi. Um söfn og sýningar við ferðamannastaði finnst mér annað megi gilda - alla vega í einhverjum tilvikum.
Og meðan ég man, hvað ísbjörninn varðar, þá er ég feginn að ekki var staðið við það kosningaloforð Besta flokksins. Einhvern veginn finnst mér að ísbjörn eigi ekki heima í búri Laugardalnum í Reykjavík.