Fara í efni

HVENÆR LES SIGRÍÐUR?

Ég bíð þess spenntur að heyra Sigríði Á Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, blanda sér í stjórnarskrárumræðuna þar sem spurt er: Hvar er nýja stjórnarskráin?

Enn sem komið er birtist ekki Sigríður Andersen á skjánum og hefði hún þó ríka ástæðu til þess.

Með “nýju stjórnarskránni” hefði hún sloppið við allt argaþrasið við skipan í Landsrétt á sínum tíma.
Hún fór þó þá að lögum að mínu mati en látum það liggja á milli hluta að sinni því um það var deilt.   
í núverandi stjórnarskrá okkar segir um skipan dómsvalds í 59. grein:

“Skipun dómsvaldsins verður eigi ákveðin nema með lögum.”

Í samræmi við þetta setti Alþingi lög um skipan dómara. Þau lög eru að mínu mati afbragðsgóð því þau deila aðkomunni að skipan dómara á milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins en tryggja jafnframt að umsækjendur undirgangist faglegt mat. Þetta er hugsunin en framkvæmdin hefur verið að slípast. Með þessum lögum var stigið mikið framfaraspor frá því að skipunarvaldið var alfarið hjá dómsmálaráherranum.

En samkvæmt "nýju stjórnarskránni" er lagt til að við stígum þetta skref til baka.

Samkvæmt henni hefiði valdið alfarið verið hjá Sigríði Á Andersen nema þá ef skipan ráðherrans hefði gengið svo fram af forseta lýðveldisins að hann hefði neitað staðfestingar með undirskrift sinni. Varðandi skipan í Landsréttinn undirritaði forsetinn hins vegar allt umyrðalaust.

Nýja ákvæðið sem ég bíð eftir að Sigríður Á. Andersen lesi fyrir okkur er svohljóðandi og er númer 96 í “nýju stjórnarskránni”:
Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Synji forseti skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með 2/3 hlutum atkvæða til að hún taki gildi.

Að þessum lestri loknum gæti Sigríður Á. Andersen horft framan í þjóð sína og spurt: Hvar er nýja stjórnarskráin?