Fara í efni

HVE LENGI Á ÉG ORÐIN MÍN?

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 22./23.12.18.
Sennilega er hugur okkar eini staðurinn þar sem við njótum fullkominnar friðhelgi. Samtal sem við eigum við okkur sjálf er þannig séð “okkar á milli”. En um leið og við leyfum hugsunum okkar að birtast í orðum eða gjörðum eru þær strangt til tekið komnar út í almannarýmið.

Þá gerast ýmsar spurningar áleitnar.

Ég sit í flugstöð og skrifa þessar línur. Ekki veit ég hvort sessunautar mínir eru læsir á hugsanir mínar, sem nú eru teknar að birtast á skjánum fyrir framan mig, sýnilegar öllum þeim sem horfa yfir öxl mér. Á ég þá ekki þessar hugsanir mínar einn lengur? Má þá hver sá sem verður þeirra áskynja fara með þær að vild í mínu nafni?

Þegar ég byrjaði í fréttamennsku undir lok áttunda áratugarins var okkur uppálagt að tilkynna viðmælendum, í símtölum sem við áttum við þá, ef væri verið að taka þá upp á segulband.

Síðan líður tíminn og á námskeiði sem ég sótti í Kaupmannahöfn þegar ég gegndi stöðu fréttaritara Sjónvarps á Norðurlöndum um miðjan níunda áratuginn, minnist ég þess hve löngum tíma var varið í að vega og meta hvenær réttlætanlegt væri að vitna í orð viðmælenda sem féllu eftir að formlegu viðtali lauk.
Eitt dæmi, sem stuðst var við, var sjónvarpsviðtal við ráðamann um stöðu flóttamanna í Svíþjóð. Þegar viðtalinu, sem var ósköp slétt og fellt, lauk, rúllaði bandið engu að síður áfram án þess að eftir því væri tekið fyrst í stað. Gerðist viðmælandinn nú illyrtur í garð flóttamanna. Ég man ekki betur en að niðurstaðan hafi orðið sú að hrakmælin hafi verið birt. Á þessum tíma þótti þetta hins vegar vera prinsippmál, sem ástæða væri að ræða af alvöru.

Og þá er spurt, skiptir máli hvað ég hugsa eða fyrst og fremst hvað ég á endanum segi og síðan að sjálfsögðu hvað ég geri? Tilefnið er að nú heyrist því haldið fram að við þurfum að þekkja innræti manna. Þá skipta hugsanir að baki gjörðum þeirra máli og að sjálfsögðu það sem sagt er í kunningjahópi, og er þá gjarnan bætt við að vín sé innri maður, samkvæmt, að vísu, vafasömu máltæki.
Á heimspekilegum nótum þarf þá að spyrja hvort það sem ég hugsa sé alltaf hin raunverulega mynd af mér; spegilmyndin sem segir hver ég er? Er innri barátta sem kann að vera háð til að vinna á eigin brestum og fordómum einskis virði? Á heimurinn rétt á að rannsaka allt hugsanaferli okkar eða á hann að láta sér nægja það sem við á endanum viljum láta frá okkur fara út í almannarýmið?

Enn eitt dæmi úr fréttamennskunni í þessu samhengi, þá kominn handan við míkrófóninn. Sem ráðherra var ég einhverju sinni í löngu viðali við fjölmiðil og fékk ég tækifæri til að lesa það yfir. Eitthvað var þarna sem mér þótti gefa ranga mynd af því sem ég raunverulega meinti og vildi ég því breyta orðum mínum. “Já, en þú sagðir þetta, við eigum það á bandi.” Þar með taldi fjölmiðillinn sig vera kominn með eignarhald á óbirtum orðum mínum. En átti viðtalið ekki að snúast um mínar skoðanir, og þá það sem ég raunverluega vildi segja að yfirveguðu ráði?

Ég hef tekið afdráttarlausa afstöðu með uppljóstrurum þegar um er að ræða líkur á svindli og misferli. Þegar slíku misferli sleppir hef ég hins vegar fyrirvara. Hvar landamærin skuli vera liggur engan veginn í augum uppi og það er sameiginlegt verkefni okkar allra að finna út hvar við viljum hafa þau.

Viðfangsefnið er ekki auðvelt; að forðast þöggun á ranglæti og ofbeldi, hvort sem er í orðum eða gjörðum, en jafnframt skapa okkur félagslega umgjörð sem ekki er um of fordæmandi og gerir þeim sem verður á í lífinu afturkvæmt.

Að undanförnu hafa gerningaveður geisað í tilfinningalífi þjóðarinnar eftir samkomu nokkurra þingmanna og síðan mikinn og stundum óvæginn fréttaflutning af samtalinu sem þar fór fram, að ógleymdri sviðssetningu á uppákomunni á fjölum Borgarleikhússins. Eftir liggja margir sárir, þeir sem töluðu og hinir sem um var rætt og að sjálfsögðu fjölskyldu- og ástvinahringur.

En nú á enn að bæta í. Sá einstaklingur sem stóð að upptöku á umræddu samtali sætir rannsókn og er svo að skilja að verið sé að undirbúa lögsókn.

Til hvers? Til þess að einstaklingurinn sem í hlut á sé látinn finna til tevatnsins; er meiningin að gjalda líku líkt, tönn fyrir tönn, auga fyrir auga, eins og segir í Gamla testamentinu?

Í mínum huga er þetta mál stærra en svo að það snúist um einstakar persónur þótt þessa stundina sé svo að sjálfsögðu. Það snýst um meiðandi orð en einnig, og alls ekki síður, um aðkomu fjölmiðla og samfélagsins almennt að málum af þessu tagi. Þetta er einnig stærra en svo að það verði leyst fyrir dómstólum. Ef horft er víðar og til þeirrar orðljótu umræðu á netinu, sem að einhverju leyti hefur birst okkur í fjölmiðlum á undanförnum mánuðum, þá þykir mér við standa á tímamótum.

Öll berum við ábyrgð á andanum í samfélaginu; hvaða gildi við viljum hafa að leiðarljósi og þá ekki síst hvort kallað er á réttlæti eða hefnd.

Ég held það hafi verið Gandhi sem sagði að ef við létum tönn fyrir tönn og auga fyrir auga lögmálið gilda, enduðum við tannlaus og sjónlaus.

Varla getur það talist eftirsóknarvert.