Fara í efni

Hvatt til ábyrgrar afstöðu gegn spilafíkn

Birtist í Mbl
Samkvæmt upplýsingum SÁÁ vex spilafíkn hér á landi hröðum skrefum og er það einkum ungt fólk sem ánetjast henni. Á undanförnum árum hefur um eitt hundrað manns fengið stuðning hjá SÁÁ vegna fíknar sinnar. Þess eru mörg dæmi að fólk spili frá sér allar eignir og oft breiðir sviðin jörð þessarar ógæfu sig til margra aðstandenda. Fyrir tveimur árum var hér á ferðinni bandarískur prófessor í geðhjúkrun, Sheila B. Blum að nafni, en hún er jafnframt stjórnandi meðferðarstofnunar fyrir áfengis-, eiturlyfja- og spilafíkla í New York. Þessi bandaríski prófessor benti á hvílíkur skaðvaldur þessi fíkn væri og sagði meðal annars eftirfarandi í viðtali við Ríkissjónvarpið: „Áfengissýki eyðileggur fjölskyldu, konu, mann og börn en spilafíkn eyðileggur fyrir mörgum kynslóðum. Ekki er einungis eignum nærfjölskyldunnar sóað heldur foreldra, afa og ömmu, barna og barnabarna. Svo spilafíkn fer verr með fjölskyldur en áfengissýki.“ Í viðtalinu kom fram að iðulega yrðu fíklar svo niðurbrotnir að þeir fyrirfæru sér. Það er vissulega mikið áhyggjuefni að ekki skuli reynt að stemma á að ósi í þessum efnum. En við ramman er reip að draga. Þeir aðilar sem hagnast á spilakössum og spilavítum hér á landi eru Háskóli Íslands og ýmsar þjóðþrifastofnanir og samtök á borð við Rauða kross Íslands, Landsbjörg og reyndar einnig SÁÁ eins mótsagnakennt og það nú hljómar. Ástæðan fyrir því að meirihluti Alþingis vill ekki aðhafast í málinu er að þessar stofnanir og samtök yrðu af mjög mikilvægum tekjustofnum, en samtals nemur beinn hagnaður þessara aðila vegna spilakassanna rúmum milljarði króna á ári. Ef kostnaður við spilavítisvélarnar er ekki dreginn frá heldur litið á það sem úr kössunum kemur þá nálgast upphæðin tvo milljarða króna. Heildarveltan er svo ennþá meiri því talsvert fer í vasa þeirra sem spila á kassana. Það skýrir fíknina, vogun vinnur, vogun tapar. Einhverjir hagnast en flestir sitja eftir með sárt ennið. En þessar tölur gefa vísbendingu um hve miklar upphæðir hér er um að tefla.

Með nokkrum sanni má segja að tveir aðilar hafi ánetjast spilakössunum, þeir sem eru háðir þeim sem tekjustofni og hinir sem haldnir eru spilafíkn. Í fyrra komu fram lagafrumvörp sem gerðu ráð fyrir banni við spilavítisvélum á Íslandi. Margir risu upp til handa og fóta innan þings og utan og túlkuðu þessi frumvörp sem árás á þær stofnanir sem hagnast á spilakössunum og þess voru dæmi að innan þeirra móðgaðist stöku maður. Engu að síður viðurkenndu flestir menn vandann og um það skapaðist samstaða á Alþingi að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar sem hafði hafið undirbúning á allsherjar endurskoðun á happdrættum. Að sjálfsögðu var þetta gert í trausti þess að eitthvað yrði aðhafst í málinu og tekið yrði tillit til þessara sjónarmiða við fyrrgreinda endurskoðun. Um þessa vinnu spurði undirritaður dómsmálaráðherra landsins, Þorstein Pálsson, í fyrirspurnartíma á Alþingi í vikunni. Ráðherrann brást við á þann hátt að segja að aldrei hafi staðið til að fara að þeim tillögum sem hann sjálfur hafði þó greitt atkvæði að vísað yrði til hans sjálfs og jafnframt benti hann á í svari sínu að ekki vildi hann svipta allar hinar góðu stofnanir þessum verðmæta tekjustofni.

Að mínum dómi er þetta óábyrg afstaða af hálfu dómsmálaráðherra landsins. Það getur ekki verið vilji okkar að nokkrar stofnanir eða samtök, hversu góð sem þau kunna að vera, séu rekin fyrir fjármuni ógæfufólks. Að sjálfsögðu á það að vera verkefni þjóðarinnar og fulltrúa hennar, hvarvetna sem ákvarðanir sem þessu tengjast eru teknar, að finna leiðir til að tryggja menningarstofnunum á borð við Háskóla Íslands og þjóðþrifasamtökum sem sinna mikilvægum verkefnum almenningi til hagsbóta fjármuni til að standa straum af starfsemi sinni á annan hátt en hirða peninga upp úr vösum þeirra sem ekki ráða við gjörðir sínar sökum spilafíknar.

Hvatt er til ábyrgrar afstöðu allra hlutaðeigandi í þessu alvarlega máli.