Fara í efni

HVAR VAR ÉG ÞEGAR GRÆNT LJÓS VAR GEFIÐ Á KÁRAHNJÚKAVIRKJUN?

...Þessa dagana fer nokkuð fyrir því í fréttum að skera beri niður í framkvæmdum hins opinbera, bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Seinka á framkvæmdum við tónlistarhús í Reykjavík – vitninsburður um "ábyrga stjórnun" segir Gísli Marteinn Baldursson, Sjálfstæðisflokki í Reykjavík á meðan Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu, benti réttilega á það í hádegisfréttum í dag, að ástæðan fyrir því að draga þyrfti úr þensluvaldandi framkvæmdum væri stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar. Ekki man ég hvort þingmenn Samfylkingarinnar, sem gagnrýnt hafa niðurskurð til vegamála að undanförnu, eins og minn ágæti félagi Kristján L. Möller, hafi horft í eigin barm og spurt: Hvar var ég þegar atkvæði voru greidd um Kárahnjúkavirkjun? Ekki veit ég hvort Dagur B. Eggertsson hafi spurt sjálfan sig þessarar spurningar.

Staðreyndin er nefnilega sú að þegar þessar ákvarðanir voru teknar var Vinstrihreyfingin grænt framboð ein um það á Alþingi að vara við nákvæmlega því sem nú er að gerast. Hið sama var uppi á teningnum í stjórn Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Frjálslyndra var þá með okkur í VG á báti ásamt sumum fulltrúum Samfylkingar á meðan bæði núverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Dagur B. Eggertsson, þáverandi og núverandi borgarfulltrúi, studdu þessar framkvæmdir.
Þetta eru staðreyndir málsins. Vinstrihreyfingin grænt framboð er eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi, sem alltaf, heill og óskiptur, hefur staðið fyrir náttúruvernd og varað við þeim efnahagslegu afleiðingum stóriðjustefnunnar sem nú eru að koma á daginn.

Við þetta má bæta, að Samfylkingin styður, að því er ég fæ best skilið, að reist verði nýtt álver á Húsavík.  Þar með er tekin afstaða með áframhaldandi stóriðjustefnu á kostnað annarar atvinnuuppbyggingar. Stjórnmálamenn verða að horfast í augu við eigin gjörðir og afleiðingar þeirra.