Fara í efni

HVAR ERU KRATARNIR?


Birtist í Blaðinu 18.09.07.
Ekki hef ég alltaf verið sammála Krötum í gegnum tíðina. Stundum hef ég þó verið það. Ekki síst þegar um hefur verið að ræða eignarhald á auðlindum. Almennt var lína Krata sú að vilja styrkja eignarhald almennings, þjóðarinnar allrar, á auðlindum Íslands. Þessi afstaða þótti mér stimpluð inn í hina kratísku vitund. Nú stöndum við frammi fyrir því að ráðafólk þjóðarinnar selji frá okkur dýrmætustu auðlindir okkar. Salan á orkuveitunum er nefnilega sala á auðlindum. Hellisheiðarvirkjun er ekki bara hús og pípur. Hún er Hellisaheiðin sjálf. Og nú standa fjárfestar sem vilja komast yfir slíkar auðlindir í röðum til að hrifsa þær til sín. Þetta þarf engum að koma á óvart. Öðru gegnir um vesaldóm ríkisstjórnarinnar því allt er þetta gert með dyggum stuðningi hennar. En getur verið að hvergi eimi eftir af gömlum arfi í flokki sem vill kenna sig við jafnaðarmennsku og almannahag? Hvar er arfleifð Hannibals? Hvar er arfleifð Gylfa? Hvar er arfleifð Jóns Baldvins? Hvar er arfleifð allra hinna? Valtar peningavaldið yfir þá sem segjast bera kyndla þessara manna án minnstu fyrirstöðu? Leggjast þeir kannski undir valtarann? Er allt orðið falt? Helsti vandinn að mati ríkisstjórnarinnar er löggjöf sem bannar útlendingum utan EES að fjárfesta í orkulindum. Þetta líkaði Fl Group, Glitni og Goldman Sachs bankanum illa enda er þegar búið að skipa nefnd til að kippa þessu í liðinn. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins. Enginn frá Neytendasamtökum, enginn frá verkalkýðshreyfingunni. Hefði Hannibal haft þetta svona?