Fara í efni

Hvar eru frjálshyggjumennirnir þegar á reynir?

Birtist í DV 28.11.2002
Fyrst var deilt um það hvort gera ætti ríkisbankana að hlutafélögum. Það var gert og nú hefur verkið nánast verið fullkomnað með því að selja Landsbanka og Búnaðarbanka að undanskildum litlum hluta sem enn er í þjóðareign. Þetta er nánast búið og gert. Gagnrýni á söluna er af ýmsum toga. Þannig sjá margir eftir þessum gullkúm: Reiknað er með að hreinn arður af Búnaðarbankanum eftir skatt á þessu ári nemi 2500 milljónum og ef útborgaður arður er greiddur eftir sömu reiknireglum og í ár nemur hann hálfum milljarði. Þessir peningar hefðu runnið í ríkissjóð, auk skatta. Eitthvert sjúkrahúsið hefði munað um minna. Efasemdarmenn um þessa einkavæðingu er ekki síst að finna í hópi markaðsmanna sem finnst glapræði að opna fyrir einokun í fjármálalífinu. Þessir menn vildu að ríkið ætti bankana – ekki til að skipta sér að rekstri þeirra -  heldur þvert á móti til að tryggja afskiptaleysi og þar með jafnræði á markaði. En gefum okkur að engin slík skynsemisrök séu tekin gild og mönnum finnist ekkert annað koma til greina en sala þá stendur ein spurning eftir. Hvers vegna láta raunverulegir markaðssinnar það átölulaust þegar stjórnarflokkarnir skipta þessum dýrmætu eignum á milli sín eins og ránsfeng? Þannig fá fyrirtæki sem sett hafa verið undir Framsóknarmenn, með pólitískum bolabrögðum, Búnaðarbankann á slíkum kostakjörum að þeir geta greitt fyrir hann án þess að leggja út fyrir honum eina einustu krónu. Þeir þurfa ekkert að borga á þessu ári – geta síðan veðsett lán fyrir greiðslunni þegar þar að kemur í bankanum sjálfum í krafti þess að hann gefur svo vel af sér. Slíkur er arðurinn að hann greiðir upp eignina á fáeinum árum. Hugmyndin um kjölfestufjárfesta var að sjálfsögðu sett fram til þess eins að geta makkað á þennan hátt. En hvers vegna kröfðust heiðarlegir hægri menn þess ekki að bankarnir yrðu seldir á opnum hlutabréfamarkaði? Hvað skýrir þögn þeirra?