Fara í efni

HVAR ER AFSÖKUNARBEIÐNIN FRÁ ÍSLANDSSPILUM OG GALLUP?

DV
DV
Birtist í helgarblaði DV 15.09.17.
Eftirlit með fjárhættuspilaiðnaðinum á Íslandi er í molum. Á árunum 2011-13 var reynt að koma böndum á þennan óhugnanlega tugmilljarða iðnað með lögum. Alþingi sýndi málinu hins vegar engan áhuga og flestir þeirra sem tjáðu sig um fram komið lagafrumvarp sýndu því fjandskap. Málið dagaði því uppi.

Ærunni fórnað fyrir spilagróðann

Þessa sögu þekki ég mjög vel því ég var sá ráðherra sem reyndi á þessum árum að bæta úr því ófremdarástandi sem ríkir hvað varðar varnir fyrir spilafíkla. Þeir eru ekki ýkja margir en nægilega margir þó til að fóðra Háskóla Íslands, SÁÁ, Landsbjörg og Rauða Krossinn, svo ríkulega að æran varð þeim fyrir bragðið minna virði en peningarnir sem aflað er með fjárhættuspilum.
Háskóli Íslands lætur sér sæma að reka grófar fjárhættubúllur undir Háspennu- og Gullnámuheitum vel vitandi að þannig má lokka inn fyrir þröskuld fólk sem haldið er spilafíkn. En öll met í ósvífni þykja mér þó slegin með nýupplýstu háttalagi Íslandsspila, regnhlífarsamtaka SÁÁ, Rauða krossins og Landsbjargar.

Sjálfum sér til höfuðs!

Ég ætlaði vart að trúa mínum eigin augum við lestur úttektar DV, í helgarblaðinu 8. september, á tilraunum sem þessir aðilar eru að gera á spilafíklum í samstarfi við framleiðendur lokkunarleikja. Milligönguaðilinn samkvæmt úttektinni er Gallup.
Samkvæmt frásögn DV ganga tilraunirnar út á að starfsmenn Gallup láta spilafíkla fást við mismunandi spennuleiki undir eftirliti og mælingum svo búa megi til sem bestar gildrur fyrir þá fyrir framan vélarnar. Spilafíklarnir fá greitt fyrir að gerast þannig tilraunadýr sjálfum sér til höfuðs! Þetta getur varla flokkast undir annað en nánast glæpsamlegt siðleysi.
Talsverð umfjöllun hefur orðið í nokkrum fjölmiðlum í kjölfar uppljóstrana DV og ítarleg í sumum þeirra og er það þakkarvert. En meiri mætti hún verða og almennari því tilefnið er ærið.

Þöggun á þingi

Þá komu allar endurminningarnar til baka. Þegar ég fyrst byrjaði að fjalla um þessi mál á Alþingi um miðjan tíunda áratuginn og tók þar við kefli sem Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og alþingismaður hafði haldið á loft og síðar Ranveig Guðmundsdóttir, þingkona. Þá tók ég fljótlega eftir ákveðnu hegðunarmynstri í þingsalnum. Varla hafði umræða hafist um málið þegar þingsalurinn nánast tæmdist. Hver vildi lenda upp á kant við hjálparsveitirnar, Rauða krossinn eða Háskóla Íslands? „Eða ert þú á móti þessum eðlu stofnunum og lífsnauðsynlegu starfsemi?" Þetta var spurningin sem lá í loftinu.

Reynt að ná samkomulagi um breytingar

Þegar ég síðan kom í dómsmálaráðuneytið sem ráðherra haustið 2010 var ég staðráðinn í því að reyna að færa þessi mál til betri vegar. Lét ég ráðast í mikla undirbúningsvinnu og lagði síðan til langtímaáætlun um breytingu á lagaumhverfi og efirliti. Allt skyldi þetta gert í skrefum og með þeim hætti að sem víðtækust sátt gæti skapast og þannig forsendur fyrir því að árangur næðist.  Á grundvelli þessarar vinnu var lagt fram áður nefnt lagafrumvarp. Áhugasamir geta síðan skoðað umræðuna sem þá fór fram í þingsal en áhugaleysið er hins vegar erfiðara að greina því þögnin ein er þar til vitnis.

DV rýfur þögnina


En nú er semsagt svo komið að eftirlitið með spilavítiskössum hefur sennilega aldrei verið minna og ósvífnin aldrei meiri. DV á hins vegar mikið lof skilið fyrir rannsóknarvinnu sína. Megi hún verða fyrsta skrefið í að gerð verði gangskör að því laga þessi mál - ekki með sýndareftirliti eins og nú er og hefur alla tíð verið, heldur verði málið tekið föstum tökum
Skerf númer tvö væri augljóslega afsökunarbeiðni af hálfu Íslandsspila og Gallup en stjórnsýslan og Alþingi mættu einnig axla sinn skerf af skömminni.
Að þessum skrefum teknum mætti setja lög um óháð eftirlit með þessari háskalegu starfsemi. Frumvarpið er tilbúið. Það mætti byrja á því að lögfesta það. En þar er umgjörðina að finna. Síðan þarf meira að koma til.
Verst er lognmollan, andvaraleysið og þögnin. Gott þegar hún er rofin þótt tilefnið sé ekki til að gleðjast yfir!