Fara í efni

HVALFJÖRÐUR OG ÍSLAMABAD

Á annað þúsund manns hafa tekið þátt í heræfingum NATÓ hér við land og á landinu sjálfu að undanförnu. Um æfingarnar í Hvalfirði sagði m.a. á mbl.is : “Vopnaðir land­gönguliðar komu á land af skipi banda­ríska sjó­hers­ins, sem var statt í mynni Hval­fjarðar, með tveim­ur þyrl­um og tveim­ur svifnökkv­um. Þeir sem komu af svifnökkv­un­um fóru á land á brynd­rek­um … “

Einnig kom fram að hernaðarandstæðingar hefðu tint krækling meðan á heræfingum stóð. Gott er til þess að vita að einhverjir mótmæltu. Ekki hefði sakað að mótmæli hefðu einnig - og kannski ekki síður -  farið fram við Stjórnarráðið eða utanríkisráðuneytið. Þar liggur ábyrgðin. Varla hjá hermönnum sem er skipað að æfa sig með drápstól.

En hvers vegna þessar æfingar?

1) Venja Íslendinga við að sýna NATÓ fylgispekt.

2) Gera NATÓ heimakomið á Íslandi. Hundar míga gjarnan þar sem þeir fara um til að helga sér svæði. NATÓ gerir þetta með skriðdrekum og vopnabúnaði.

Hinum megin á hnettinum voru sömu öfl að verki og þau sem skipa hermönnum að hlaupa hér um með byssur. Á sama tíma og skriðdrekum var ekið á land í sandfjörum Hvalfjarðar bárust fréttir frá Íslamabad í Pakistan um að verið væri að bola forsætisráðherranum frá völdum. Allt gert “löglega” en baktjaldamakki og þumalskrúfum beitt. Afsettur forsætisráðherra, Imrahm Kahn, varaði nýlega opinberlega við því hvað væri á seyði. Að undirlagi bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, yrði honum fljótlega vikið frá. Og nákvæmlega það hefur nú gerst.

Imrahm Kahn talar nú oinskátt um að “regime change” hafi átt sér stað að undirlagi Bandaríkjastjórnar sem sannfært hafi pakistanska herinn um nauðsyn þessa og talið svo nokkra þingmenn á að slást í lið með stjórnarndstöðunni til að steypa sér.   

Og hverjar telur hann ástæðurnar?

Í fyrsta lagi þá hafi hann gerst fráhverfur frekara samstarfi við Bandaríkjamenn eftir náið samstarf við þá um alllangt árabil  í baráttu gegn hryðjuverkum. Uppskeran fyrir Pakistani hafi verið áttatíu þúsund manns drepnir, meðal annars með drónahernaði Bandaríkjamanna.

Í öðru lagi hafi hann neitað að taka þátt í stríðinu í Jemen.

Í þriðja lagi hafi hann neitað Bandaríkjamönnum um að opna herstöðvar í Pakistan.

Í fjórða þriðja lagi hafi hann neitað að fylgja skipunum BNA og ESB í viðureign NATÓ við Rússa. Við erum ekki þrælar vesturveldanna á hann að hafa sagt.

Það er nú það. Viljir þú ekki viðurkenna gæslumenn heimskapítalismans sem húsbændur þína þá er bara fyrir þá að gera að finna viljugan þræl og skipta út. Það kallast regime change.

Mikið myndi það gera heiminum gott að hafa hann jafnan allan undir þegar heimsmálin eru skoðuð.