Fara í efni

HVAÐAN KEMUR DRIFKRAFTURINN?

Sigurður Gísli Pálmason
Sigurður Gísli Pálmason

Gott þótti mér viðtal við Sigurð Gísla Pálmason í Morgunblaðinu 13. desember sl. Sigurður Gísli hafði þá fest kaup á myndlistargalleríinu, Gallerí i8 við Klapparstíg í Reykjavík. Af því tilefni var viðtalið tekið.

Að tapa ekki sjálfum sér

Þar skýrði Sigurður Gísli áhuga sinn á myndlist. Einnig hafði hann fram að færa hugleiðingar um Ísland í nútíð og framtíð; hvað geri okkur að kröftugri þjóð.: „Til eru forystumenn í atvinnulífinu sem geta ekki beðið eftir því að við slátrum krónunni, gjaldmiðlinum okkar, og forstjórar í útrás kvarta undan því að þurfa að burðast með íslenskuna. Ég undrast svona ummæli. Ein af ástæðum þess að okkur gengur eins vel og raun ber vitni er sú að við tölum íslensku. Við eigum ævafornt tungumál sem ristir djúpt og við eigum okkar gjaldmiðil og erum sjálfstæð þjóð. Það gerir okkur sérstök þegar við erum að hasla okkur völl erlendis. Um leið og við hættum að tala íslensku og förum að nota evru höfum við ekki sérstöðu lengur. Við töpum mikilvægum parti af okkur sjálfum."

Munum við stækka eða smækka?

Þetta tel ég vera hárrétt mat hjá Sigurði Gísla Pálmasyni. Drifkrafturinn í íslensku samfélagi verður ekki skýrður með skírskotun til efnalegra gæða. Það er hið huglæga í tilverunni sem ræður úrslitum. Ég bjó um skeið í Edinborg í Skotlandi. Falleg borg, gott fólk og kröftugt. Í Edinborg bjó helmingi fleira fólk en á Íslandi öllu. Þó var Edinborg minni en Reykjavík. Íslendingum fer jafnt og þétt fjölgandi. Hvort skyldi eiga fyrir okkur að liggja, að stækka eða smækka - í andanum?

Mælikvarðar árangurs

Þessar spurningar vöknuðu í huga mér þegar ég las viðtalið við Sigurð Gísla Pálmason, mann sem hefur peninga handa á milli en hefur ekki misst sjónar á mikilvægi hinnar  huglægu og menningarlegu víddar tilverunnar: „Ég er þeirrar skoðunar að listir og menning skipti miklu máli. Hvaða gildi skipta máli þegar fólk horfir til baka eftir 100 ár? Það verða ekki eingöngu hinir hagrænu mælikvarðar sem verða tíndir til, einnig listir, svo sem myndlist, tónlist og skáldverk. Menninguna munu afkomendur okkar skoða og leggja mælistikuna á, ekki síður en afkomutölurnar."