Fara í efni

Hvað vill Ingibjörg Sólrún Gísladóttir láta einkavæða?

Það er merkilegt hve áhugasamir  ýmsir aðilar innan Samfylkingarinnar virðist vera um einkavæðingu. Í fréttum í kvöld birtist formaður svokallaðrar Framtíðarnefndar flokksins til að lýsa þeirri skoðun sinni að ekki beri nauðsyn til að opinberir starfsmenn sinni almannaþjónustunni. Þetta er hárrétt hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem gegnir formennsku í framangreindri nefnd. Það er vissulega hægt að einkavæða þessa þjónustu og fela hana fyrirtækjum á markaði. En hvaða þjónustu telur hún að eigi að einkavæða?  Þetta tungutak og þessi óræða nálgun minnir nokkuð á Blair hinn breska þegar hann var að undirbúa einkavæðingaráform sín. Nú er svo komið að hann hefur gengið jafnvel harðar fram en Íhaldið breska í einkavæðingunni með vægast sagt hörmulegum afleiðingum. Þjónustan hefur yfirleitt orðið lakari og miklu dýrari fyrir skattborgarann eftir að hún var markaðsvædd og þar sem einstaklingarnir hafa verið látnir borga með notendagjöldum hefur þetta haft í för með sér auknar búsifjar fyrir þá og auk þess félagslega mismunun. Er Ingibjörg Sólrún að vísa til skólakerfisins, heilbrigðisþjónustunnar, vatnsveitunnar? Hvað á að einkavæða? Formaður Framtíðarnefndar þarf að tala skýrar. Varla dugir að tala á dulmáli þegar lagt er á ráðin um framtíðina -eða hvað?