Fara í efni

Hvað verða margir grafnir?


Við fáum nú fréttir í hverjum fréttatíma frá Írak. Okkur er sagt frá stórsigrum bandaríska hernámsliðsins þar. Svo er að skilja að mannfall hafi ekki orðið mikið í röðum þess og látið að því liggja að óbreyttir borgarar séu nánast undanþegnir hörmungum stríðsins þrátt fyrir að heimkynni þeirra hafi verið jöfnuð við jörðu, skrúfað fyrir vatn og rafmagn, taugaveiki að breiðast út og haldið uppi stórskotaárásum á þá. Þeir einu sem kúlurnar hitti hins vegar séu lögmæt skotmörk, “hryðjuverkamenn” eins og bandarísk hermálayfirvöld skilgreina alla þá sem andæfa hernáminu. Eitthvað kemur þetta ekki heim og saman og hafa gagnrýnir fréttamenn vestan hafs og austan vakið máls á því. Í þeirra hópi er Greg Palast sem skrifar í stórblöð í Bandaríkjunum og Bretlandi auk þess sem hann gerir fréttaþætti fyrir BBC. Greg Palast snuprar starfsbræður sína á New York Times og dregur að þeim dár með því einu að hafa yfir fréttaskrif þeirra sl. mánudag.

Hann setur sig í spor kennarans sem leggur fyrir nemendur sína reikningsdæmi:

“Á mánudag á bls. 1 í New York Times stendur: “Bandarískir herstjórnendur segja 38 bandaríska hermenn hafa fallið og 275 særst í árásinni á Falluja.” Í sama blaði á síðu 11 stendur: “Bandaríski herspítalinn hér (í Þýskalandi) segist hafa tekið við 419 særðum Bandaríkjamönnum síðan umsátrið um Falluja byrjaði.” 

Spurningarnar fyrir bekkinn eru:

  1. Ef  275 bandarískir hermenn særðust í Falluja og 419 fengu meðferð vegna sára sinna, hversu margir voru skotnir í flugvélinni á leið til Þýskalands?
  2. Okkur er sagt að aðeins 275 hafi særst en 419 hafi fengið meðferð vegna sára; og okkur er sagt að 38 hermenn hafi látist. Spurningin er því; hversu margir verða grafnir?

Og Pallast spyr hversu lengi blaðamenn N.Y.Times hafi búið inn á hernum í Írak og hvenær þeir ætli að koma sér úr því sameiginlega fleti.

Spurningar Pallast kunna að vera teknar sem hótfyndni, en í raun eru þær dauðans alvara og vekja aðrar spurningar. Hverjir fóðra okkur á upplýsingum um ástandið í Írak? Svar: Að langmestu leyti koma þær frá “vestrænum” fréttastofum. Hvaðan hafa þær sínar heimildir? Svar: Frá fréttamiðstöð bandaríska hersins. Spurning: Er hægt að líta á þær heimildir sem óhlutlægar og traustar? Svar: Nei.

En stóru spurningunni er enn ósvarað. Hversu margir verða grafnir í Írak?