Fara í efni

Hvað telur Landsvirkjun viðunandi orkuverð?

Birtist í Mbl
Virkjanamál
Í mjög athyglisverðu viðtali við Þorgeir Eyjólfsson, stjórnarformann Þróunarfélagsins, sem birtist á baksíðu Morgunblaðsins síðastliðinn þriðjudag um fjármögnun á álveri í Reyðarfirði hvetur hann til varfærni. Þorgeir segir að áliðnaðurinn sé fjárfrek atvinnugrein þar sem samkeppni sé afar hörð. „Þegar illa árar í áliðnaði eru það hagkvæmustu verksmiðjurnar sem lifa af, hinum er lokað. Álver á Austurlandi á að geta orðið mikilvæg stoð í atvinnulífi landsbyggðarinnar og af þeirri ástæðu tel ég að ekki megi taka neina áhættu varðandi samkeppnishæfni slíks fyrirtækis.“

Þorgeir Eyjólfsson, sem er einnig forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, kveðst óttast að erfitt muni reynast að safna fjármagni til að reisa 120 þúsund tonna álver án þess að fyrir liggi fyrirheit um að fyrirhugað álver yrði stækkað. Í framhaldinu segir hann mikilvægt að fyrir liggi af hálfu stjórnvalda og Landsvirkjunar samningur um „…afhendingu frekari orku til stækkaðs álvers á viðunandi verði séð frá sjónarhóli væntanlegra fjárfesta.“ Hér er talað skýrt og skiljanlega.

Í framhaldinu er eðlilegt að spurt sé hvað sé viðunandi orkuverð frá sjónarhóli orkusala? Í umræðu um þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um framhald á framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun var gengið eftir því við iðnaðarráðherra að hann lýsti því yfir að ekki yrði ráðist í framkvæmdir við virkjun í Fljótsdal, nema að áður hefði verið samið um viðunandi orkuverð frá sjónarhóli orkusala.

Ráðherrann staðfesti að væntanleg virkjun yrði að lágmarki að skila 5-6% arðsemi. Þetta þykir lág arðsemiskrafa á markaði en látum það vera því ráðherrann sagði ennfremur að vegna fyrirhugaðra framkvæmda yrði unnt að lækka almennt orkuverð í landinu um 20 til 30%, innan tíu ára. Hvað telur Landsvirkjun að viðunandi orkuverð þurfi að vera til að ofangreindum skilyrðum sé fullnægt?