Fara í efni

Hvað kostar Schengen?

Birtist í Mbl
Þegar umræður fóru fram um Schengen-samkomulagið á Alþingi var ítrekað spurt hvað það myndi kosta Íslendinga að taka að sér landamæravörslu fyrir Evrópusambandið. Fátt varð um svör. Við umræðurnar sagði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra að kostnaðurinn væri ekki aðalatriðið, ákvörðunin um aðild að Schengen væri „fyrst og fremst pólitísks eðlis“ og fjallaði um það hvar Ísland vildi standa í alþjóðlegri samvinnu.

Ekki efast ég um að þetta hafi verið sannfæring ráðherrans en á því hlýtur þjóðin þó að eiga heimtingu að vita hver kostnaðurinn er af því að gerast landamæraverðir fyrir Evrópusambandið. Svo miklir hugsjónamenn geta menn vart leyft sér að gerast í Evrópupólitík að hagræn rök verði nánast aukaatriði.

Á málþingi sem Samtök um vestræna samvinnu, Varðberg og stjórnmálafræðiskor HÍ efndu til um Schengen-samstarfið sl. miðvikudag sagði Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra að sá kostnaður sem bókfærður hefði verið hjá dómsmálaráðuneytinu vegna Schengen á árunum 1997-1999 væri um 130 milljónir, á árinu 2000 væri hann áætlaður um 200 milljónir og í ár væri gert ráð fyrir 135 milljóna króna útgjöldum. Þá sagði dómsmálaráðherra að af u.þ.b. 4 milljarða króna kostnaði við stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar væri áætlað að um 700 milljónir kr. stöfuðu af kröfum um aðskilnað farþega í samræmi við Schengen-reglurnar en tók þó jafnframt fram að endanlegur kostnaður lægi ekki fyrir.

Þrír milljarðar en ekki einn.

Nú virðist það vera að gerast sem marga grunaði, að reynt yrði að bókfæra tilkostnaðinn vegna Schengen þannig að útgjöldin virtust sem minnst. Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 20. janúar síðastliðinn komu fram staðhæfingar sem ganga þvert á þær tölur sem stjórnvöld halda nú að okkur. Í greininni, sem fyrrverandi forstjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, Ómar Kristjánsson, ritar, segir meðal annars: „Meðal þess kostnaðar sem íslenska þjóðin hefur tekið á sig og fellur undir þátttökugjaldið að Schengensamkomulaginu eru sérhannaðar byggingar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli sem munu kosta þjóðina þrjá milljarða króna að minnsta kosti samkvæmt nýjustu upplýsingum. Hluti byggingarinnar, sem í heild mun kosta um fjóra milljarða, er stækkun flugstöðvarinnar sem nauðsynlegt var að ráðast í. Sá hluti er, að mínu mati og sumra annarra sem sátu í byggingarnefnd vegna stækkunar flugstöðvarinnar, ekki nema einn fjórði hluti heildarbyggingarkostnaðarins.“ Hér er því haldið fram að byggingarkostnaður vegna Schengen-aðildar sé ekki tæpur milljarður eða 700 milljónir einsog dómsmálaráðherra nefnir heldur þrír milljarðar.

Eins og fram kemur eru þetta orð manns sem setið hefur í byggingarnefnd flugstöðvarinnar. Hann segir ennfremur „…að rekstrarkostnaður ríkisins og hinna ýmsu rekstraraðila í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna Schengenaðildar skiptir hundruðum milljóna á ári. Það má kalla það árgjaldið í Schengen. Við vegabréfaskoðun vegna aðildarinnar þarf a.m.k. 40 til 50 starfsmenn á ári. Auk þess þurfa flestir rekstraraðilar, flugrekendur, verslunar- og þjónustuaðilar í flugstöðinni að nánast tvöfalda starfsemi sína, þ.e. starfsemi verður að vera vegna þeirra sem eru utan Schengen og hinna sem eru innan Schengen.“

Fátt er svo með öllu illt.

Ekki er það þó svo að Schengen boði ekki eitthvað gott að mati Ómars Kristjánssonar. ,,Kosturinn við þessa aðild, það er eini kosturinn sem ég sé, ef kost skal kalla, er að Íslendingar þurfa sjálfir ekki að sýna vegabréf þegar þeir koma inn í þátttökulönd Schengensvæðisins. Greiðslan fyrir þennan þægindaauka er margir milljarðar í þáttökugjald og hundruð milljóna á ári í framtíðinni.“

Þessi orð stangast óneitanlega á við staðhæfingar sem ríkisstjórnin heldur fram um tilkostnaðinn við Schengen og virðast mér röksemdir fyrrverandi forstjóra Flughafnarinnar sannfærandi. Ekki trúi ég því að ég sé einn á þeirri skoðun að þær upphæðir sem hér eru nefndar séu nokkuð háar greiðslur fyrir hugsjónastarf íslenskra stjórnmálamanna sem langar til að eiga greiða leið til Brussel.

Og rétt í lokin, þurfa menn ekki yfirleitt að bíða skemur í biðröðum eftir passaskoðun en eftir farangrinum í erlendum flughöfnum eða er þetta misminni hjá mér?