Fara í efni

HVAÐ GAFST ÞÚ?


Ef til vill er ég aðeins of fljótur á mér að setja niður þessar línur um boðskap barnasálfræðingsins Hugos Þórissonar. Ef til vill ætti ég að bíða eftir Hollráðum Hugos, bókinni sem hann sagði frá í stórgóðu viðtali við Fréttatímann fyrr í mánuðinum. Bókin væri komin í prent eða svo gott sem og væntanleg á markað í haust.

Viðtalið við Hugo Þórisson í Fréttatímanum las ég ekki fyrr en núna þegar rósemd Verslunamannahelgarinnar færist yfir okkur, sem höldum kyrru fyrir á höfðuborgarsvæðinu þessa mestu ferðahelgi ársins.
Í mínum huga er Verslunarmannahelgin eins konar páskar sumarsins, friðarhelgi slökunar. Sennilega hvílir mestur þunginn á verslunarmönnum þessa helgi þó þetta eigi að vera þeirra fríhelgi. Þó er það ekki algilt því margir stjórnendur verslana kappkosta að loka í fyrra lagi og liðka til fyrir starfsfólki. Kannski er það óskhyggja.

En aftur að Hugo, sem alla tíð hefur verið í uppáaldi hjá mér eða síðan ég heyrði hann einhvern tímann fjalla um vinnusálfræði og samskipti á vinnustað. Sjónarhorn hans var skarpt og frumlegt. Þessir eiginleikar komu fram í fyrrnefndu viðtali í Fréttatímanum.

Sérstaklega fannst mér snjallt það sem hann hafði að segja um gjafir. Hugo vill ekki spyrja börn hvað þau hafi fengið í jólagjöf - einsog okkur flestum er tamt að spyrja  - heldur snýr hann dæminu við:

„Ég hvet fólk til að spyrja börn „hvað gafstu í jólagjöf?" Flestir segja „hvað fékkstu" í merkingunni „hvað græddirðu?" Ég spyr börn „hvað gafstu" - og hvet kennara og foreldra til að gera það. Þá fær maður að heyra af gjöfum sem þau hafa búið til á leikskólanum og kannski verið í vikur að undirbúa með tilheyrandi spenningi. Svo hefur enginn áhuga á að spyrja um það!"

Skemmtileg nálgun og uppbyggileg hugsun. En nú er að bíða eftir Hollráðunum.