Fara í efni

HVAÐ ER VEL HEPPNUÐ BANKASALA?

Nú er rætt um nýafstaðna sölu á enn einum hlut þjóðarinnar í Íslandsbanka og er að sjá að margir hafi orðið fyrir áfalli, vilji helst ógilda söluna. Það væri prýðilegt ef það væri hugsað til frambúðar.

Á Alþingi studdu nær allir þessa sölu. Það er bara að þessi mátti ekki kaupa og ekki hinn. Í ljós kom nefinlega að gamlir kunningjar voru á ferðinni, lumuðu á góðum fúlgum til fjárfestinga sem svo aftur færðu þeim á örskotsstundu milljónir og mjilljónatugi í gróða þegar undirverðið tók að nálgast markaðsvirði bréfanna. Allt eins og áður.

Út á þetta og nákvæmlega þetta gengur leikurinn, koma banka úr almannaeign til fjárfesta, helst erlendra sagði fjármálaráðherrann, sagðist hafa um sinn haft áhyggjur af því að útlandið myndi ekki skila sér en svo hafi ræst úr því. Sem betur fer!

Síðan væri mikilvægt að smærri fjárfestar - hinn almenni maður -  fengju að fljóta með og var því sérstaklega fagnað að einmitt þetta hefði tekist svo giftusamlega í fyrsta söluátakinu. Þá hafi verið tryggð “dreifð eignaraðild” með þúsundum fjárfesta. Gott væri að virkja sem flesta.  Svona talaði Margrét Thatcher líka, gera sem flesta að kapítalistum. Þeim ætti að finnast þeir eiga mikið undir því komið að kapítalismanum vegnaði vel. Þarna vill náttúrlega gleymast að eignaraðild að banka getur ekki orðið dreifðari en þegar þjóðin öll á hann og að gera sem flesta að varðstöðumönnum kapítlaismans er varla eftisóknarvert markmið.

Svo eru það lífeyrissjóðirnir. Þeir vilja vera með sinn pening þar sem mest er að fá. Þegar kemur að gróðasókninni eru þeir ekki hótinu betri en aðrir og í þeirra banka á helst alltaf að vera hámarksarður og hámarksvextir. Hitt er svo rétt að skárra er að arðurinn renni í sjóði sem koma hinum almenna eftirlaunamanni til góða en í prívatbuddur.

En hvað er þá vel heppnuð bankasala og hvað ekki? Svo er að skilja að þessi síðasta bankasala sé talin illa heppnuð bara af einni ástæðu: Almeninngur hafi því miður komið auga á út á hvað sala af þessu tagi gengur, nefnilega að leyfa peningafólki að maka krókinn – og kaupa í leiðinni vevild þeirra þúsunda sem geta fengið klípu í leiðinni. 

Að þeirri framtíð mun að sjálfsögðu koma að bankar sem taka við kaupinu okkar og lána síðan til búkþarfa geri það á lágmarkskjörum og til að þjóna samfélagi sínu en ekki fjárfestum sem engan annan tilgang hafa í eignarhaldi en að veita þeim aðgang að veskjum okkar. 

En augljóst er að það þarf að hafa fyrir því að koma þessari framtíð í framkvæmd.