Fara í efni

Hvað er framundan?

Það vekur óneitanlega athygli hve samdóma álit það er manna á meðal að núverandi ríkisstjórn sé komin að fótum fram. Það er óalgengt um rúmlega ársgamla stjórn að á hana sé litið sem háaldraða. Í dag skrifar Steingrímur Ólafsson athyglisverðar vangaveltur í frjálsum pennum um hvað hann telji æskilegt að taki við að afloknum næstu kosningum. Steimgrímur er fyrrverandi formaður VG í Reykjavík og talar án efa fyrir munn mjög margra. Væru stjórnarandstöðuflokkarnir tilbúnir að mynda kosningabandalag í komandi kosningum spyr Streingrímur. Sjálfur er hann þeirrar skoðunar og spyr hann mig um afstöðu mína til þessa. Þessu er auðsvarað af minni hálfu. Allar götur frá því ég komst til pólitísks vits og þroska hef ég  verið á því að flokkar sem sjálfir vilja skilgreina sig sem félagshyggjuflokka ættu að reyna að ná saman í ríkisstjórn. Í kosningum yrði það útkljáð hvaða áherslur innan félagshyggjustjórnmála yrðu sterkastar. Um þetta berðust þessir flokkar. Það er þeirra gæfa að vera ekki í múlbundnir í niðurnjörfuðum stórflokki þar sem slík umræða gæti aldrei farið fram, hvað þá að kjósendum væri gefinn kostur á að breyta styrkleikahlutföllum. Svar mitt við spurningum og vangaveltum Steingríms Ólafssonar er játandi þótt ekki sé ég viss um að þörf sé á því að mynda sérstakt  formlegt kosningabandalag. Nægja ekki yfirlýsingar og heitstrengingar? Ég hefði haldið það.