Fara í efni

HVAÐ EF ... ?

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 03/04.12.22.
Þannig spyr Valur Gunnarsson rithöfundur og blaðamaður, landkönnuður liggur mér við að kalla hann í því hlutverki því að víða hefur hann farið á undanförnum árum, einkum í Austurvegi, fyrrum Sovétlýðveldunum, og kynnt sér aðstæður fólks þar um slóðir í nánast nýjum heimi eftir fall Sovétríkjanna.

En hvað ef hvað? Spurninguna í heiti nýútkominnar bókar Vals á augljóslega eftir að bera fram til fulls.

Höfundur bregður á leik og botnar spurningu sína í fimmtán köflum þar sem hann staðnæmist við ýmsa lykilviðburði mannkynssögunar og spyr hverjar hefðu orðið afleiðingarnar ef þessir viðburðir hefðu ekki átt sér stað eða farið á annan veg eða þá að tilteknar persónur hefðu aldrei litið dagsins ljós. Þetta býður upp á hugarleikfimi sem hafa má góða skemmtun af og kannski gagn líka.

Þetta gefur vissulega tilefni til að ígrunda hvert sé hreyfiafl sögulegrar framvindu og þá hvort tilviljanir og ýmsir duttlungar örlaganna skipti máli um endanlegan gang sögunnar eða hvort framvindan stjórnist af hagsmunaöflum svo seigfljótandi að þau streymi fram nánast óháð persónum og leikendum. Löngum hafa menn spurt þessara spurninga, að hvaða marki við höfum sem einstaklingar eða sem sameinað afl áhrif á gang sögunnar með gjörðum okkar eða kannski ekki síður með aðgerðarleysi okkar ef því er að skipta. Þeir sem sitja á áhorfendabekkjunum eru nefnilega á sinn hátt gerendur því án sinnuleysis þeirra kæmust harðstjórar heimsins varla jafn auðveldlega upp með yfirgang sinn, að ekki sé minnst á þá sem fara um veröldina rænandi og ruplandi í skjóli ríkisvalds og hervalds sem áhorfendastúkan hlýtur að bera einhverja ábyrgð á.

En höldum áfram að spyrja. Hvað ef nýlenduveldin gömlu hefðu ekki skipt heiminum eins og þau gerðu á öndverðri öldinni sem leið, búið til ríki sem aldrei höfðu verið til og landamæri iðulega þvert á menningu, tungumál og hefðir, allt til að þjóna eigin hagsmunum? Ekki þarf annað en að fletta landakortabók til að sjá að landamæri í fyrrum nýlendum voru gerð með regslustriku. Hefði ekki mátt ætla að öðru vísi væri umhorfs til dæmis í Austurlöndum nær og í Afríku ef ákvörðunarvaldið hefði legið nær íbúum þessara svæða?

Og hvað ef almenningur á Vesturlöndum hefði sýnt jafn mikla hluttekningu gagnvart öllum stríðshrjáðum þjóðum og hann gerir gagnvart stríðinu í Úkraínu, hefði það breytt sögunni? Er ég þá ekki að tala um það stríð sem hófst í austurhluta Úkraínu fyrir tíu árum, því stríði vildi nefnilega enginn vita af. Ég er að sjálfsögðu að tala um innrásarstríð Rússa sem hófst fyrir tíu mánuðum. Þar er samkenndin án nokkurra takmarkanna. Ríkisstjórn hinnar herlausu íslensku þjóðar flytur vopn á vígvöllinn og sendir peysur og sokka enda segir utanríkisráðherra þjóðarinnar að menn þurfi að geta haldið á sér hita til að geta beitt drápstólunum svo gagn sé að!

 Nú ætla ég ekki að ganga svo langt að mæla með því að Íslendingar sendi hergögn og ullarfatnað upp í fjöllin í landamærahéruðum Tyrklands og Íraks eða til Kúrdabyggðanna suður af tyrknesku landamærunum við Sýrland. Þar eru nú gerðar grimmilegar og mannskæðar loftárásir hvern einn einasta dag og staðhæft er að tyrkneski herinn beiti efnavopnum. Það er á mörkunum að fjölmiðlar minnist á þetta nema þá í framhjáhlaupi. 

En hvað ef Íslendingar tækju upp málstað þessa fólks svo að undir tæki, söfnuðu liði og töluðu fyrir friði á þessum svæðum, líka á Sahelsvæðinu í Afríku þar sem gömlu nýlenduveldin eru enn að, í Jemen og Líbýu þar sem ekkki er lát á að barist sé um olíuna, svo að eitthvað sé talið. Já hvað ef…?

Þetta eru náttúrlega mín dæmi þótt hugmyndin komi frá Val Gunnarssyni um að spyrja hvað ef …?
Ein spurning hans hefur hins vegar haft afleiðingar sem vert er að hugleiða af mikilli alvöru. Hvað ef Hitler hefði unnið heimsstyrjöldina síðari, hvað þá? Þannig var spurt í bók Vals.

Salka útgáfan sem gefur út bók hans hafði varla sett þessa spurningu í loftið í auglýsingu um bókina þegar facebook brást við. Einhver vél inni í því virki hafði greinilega verið prógrammeruð þannig að hún útlokaði alla sem nefndu Hitler á nafn. Í þessu tilviki ekki bara bók Vals Gunnarssonar heldur líka útgáfufyrirtækið sem gaf hana út og þar með alla höfunda sem nálægt þessari útgáfu koma. Þetta bann mun eiga að standa í mánuð, væntanlega sem víti til varnaðar.

Þá vaknar mín síðasta hvað ef spurning. Ef það er látið óátalið að öflugustu miðlunarveitur heimsins taki sér lögregluvald með þessum hætti, hvenær verður búið að þrengja svo að málfrelsinu að við getum ekki lengur litið svo á að við búum í frjálsu þjóðfélagi?

Getur verið að við stöndum þegar á krossgötum að þessu leyti?

Er ekki orðin rík þörf á því að safna liði til varnar málfrelsinu?

Hvað ef það verður ekki gert?

Já hvað ef?