Fara í efni

HÚRRA FYRIR VINNUMÁLASTOFNUN


Í kvöldfréttum Sjónvarps í gær og síðan í Kastljósi í kjölfarið var lagt út af innanhússpósti í Vinnumálastofnun þar sem fram kom það sjónarmið starfsmanns að afgreiða ætti umsókn um starfsleyfi fyrir tiltekinn erlendan verkamann með "ljóshraða" enda mætti búast við því að fyrir vikið væri verkamaðurinn reiðubúinn að fletta ofan af óheiðarlegum vinnubrögðum óprúttinnar starfsmannaleigu. Kristján Kristjánsson stýrði umræðunni í Kastljósi og fórst það vel úr hendi. Hins vegar var bæði í fréttum og kynningu á samtali framkvæmdastjóra Vinnumálastofnunar og lögmanns starfsmannaleigu sem legið hefur undir ámæli fyrir óprúttin vinnubrögð, gefið sterklega í skyn að Vinnumálastofnun hefði misnotað aðstöðu sína.

Það gerði hún tvímælalaust ekki að mínu mati. Það er ekki ólöglegt að veita atvinnuleyfi. Það er ekki heldur ólöglegt að veita atvinnuleyfi með "ljóshraða". Eftir því sem ég skil málið voru fyrir því efnislegar ástæður að veita verkamanninum atvinnuleyfi og þar með fyrirtækinu sem sóttist eftir leyfinu fyrir hans hönd. Ef eitthvað óhreint hefði verið í pokahorninu, maðurinn hefði ekki átt að fá atvinnuleyfi, en Vinnumálastofnunun séð í gegnum fingur sér og veitt honum leyfið gegn einhverjum greiða, þá hefði það tvímælalaust verið gagnrýnivert. Þetta er nokkuð sem undirheimalögregla hefur oft verið sökuð um að gera. Orðalagið í inngangi fréttanna skapaði hugrenningatengsl milli  vinnubragða Vinnumálastofnunar og New York glæpalöggunnar að þessu leyti, ef trúa má því sem sýnt er í sjónvarpsþáttunum.

Vinnumálastofnun er að stuðla að því að upplýst verði um siðlaust og hugsanlega ólöglegt athæfi þar sem fórnarlömbin eru verkamenn, iðulega fátækir og varnarlitlir – og fullkomlega saklausir. Þeir eru ekki glæpamenn, þeir eru fórnarlömb. Komist þeir ekki úr klóm þeirra sem upphaflega fengu fyrir þá atvinnuleyfi eru þeim allar bjargir bannaðar. Fái þeir hins vegar atvinnu hjá heiðarlegu fyrirtæki, öðlast þeir öryggi og í skjóli þess geta þeir talað opinskátt.

Vinnumálastofnun hefur oft sætt ámæli fyrir linku, einkum við Kárahnjúka. Innanhúss tölvupósturinn úr stofnuninni sem nú er orðinn að fréttaefni, segir ekkert um vinnulag innan Vinnumálastofnunar og þá hvaða ákvarðanir endanlega verða ofan á og á hvaða forsendum niðurstöður eru fengnar. Hann segir okkur hins vegar að í Vinnumálastofnun er að finna fólk, sem lætur sér ekki standa á sama þegar starfsmannaleigur taka beint eða óbeint þátt í því að ósvífnir atvinnurekendur fari á bak við íslensk lög í því skyni að misnota erlenda farandverkamenn.