Fara í efni

HÚRRA FYRIR HÁSKÓLA ÍSLANDS?


Vinur minn einn er spilafíkill. Hann er líka öryrki. Hann ætlaði í dag að kaupa í matinn fyrir komandi mánuð - einsog hann og kona hans gera í hverjum mánuði. Í vasanum voru 95 þúsund krónur - peningar sem þurftu að duga lengi. Á vegi vinar míns var Gullnáman. Hún er sem kunnugt er spilavíti í eigu Háskóla Íslands. Það sem upp úr námunni kemur  - í dag sem endranær - er notað til að fjármagna byggingar okkar ástsælu menntastofnunar, HÍ.
Gullnáman býr ekki yfir neinum verðmætum að morgni dags - öðru en þá klinki til að hefja daginn. Í dagslok glóir hins vegar gullið. Þá hafa vinur minn og aðrir sem svipað er ástatt fyrir komið þar við og veitt aðgang að pyngju sinni.
Er þetta nógu gott? Hvað finnst Siðfræðistofnun HÍ, hvað finnst Guðfræðideildinni, Læknadeildinni, Verkfræðideild? Hvernig væri að Endurmenntunarstofnun efndi til seminars?  Finnst þeim háskólamönnum allur peningur vera jafn góður? Alla jafna hrópa ég húrra fyrir Háskóla íslands og því sem hann gott gerir. Sem er margt. Mjög margt. En fyrir þessu get ég ekki hrópað húrra. Getið þið það?
Við verðum að leysa Háskóla Íslands úr spennitreyjunni! Ábyrgðin hvílir á Háskóla Íslands. En hún hvílir ekki bara á honum. Hún hvílir á fjárveitingarvaldinu, hún hvílir á ríkisstjórn og Alþingi.