Fara í efni

Hugsjónir hafa aldrei slokknað innan Lúðrasveitar verkalýðsinsÞetta ávarp birtist í afmælisriti sem gefið var út í tilefni af
afmælistónleikum á 50 ára afmælisdegi Lúðrasveitar verkalýðsins 8. mars.  
Ávarp Ögmundar Jónassonar á hálfrar aldar afmæli Lúðrasveitar verkalýðsins:
Eftir því sem ég kemst næst mun Lúðrasveit verkalýðsins vera eina lúðrasveitin sem fram hefur komið undir nafni verkalýðssamtaka á Íslandi. Tildrögin að stofnun sveitarinnar segja sína sögu. Í byrjun sjötta áratugarins voru miklar sviptingar í stjórnmálum og náðu þær inn í innsta kjarna verkalýðshreyfingarinnar. Í árslok 1952 kom til mikilla verkafallsátaka en í aðdraganda þeirra voru harðar deilur uppi innan hreyfingarinnar, m.a. klofningur í tengslum við baráttudag verkalýðsins 1. maí. Atli Magnússon segir frá því í bókinni Skært lúðrar hljóma að fylgismenn hins róttæka meirihluta í Fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík hafi talið nauðsynlegt að stofna sérstaka lúðrasveit verkalýðs sem "reiða mátti sig á í slíkum sviptingum". 

Þetta eru löngu liðnir tímar. En þetta minnir okkur á tvennt. Annað er að Lúðrasveit verkalýðsins varð til þegar baráttu- og hugsjónaeldar loguðu, og hitt er að til Lúðrasveitar verkalýðsins var stofnað í þeirri vissu að hún yrði traustsins verð.

Ég hef orðið þess var að hugsjónir hafa aldrei slokknað innan Lúðrasveitar verkalýðsins. Nú eru þær ekki pólitískar á sama hátt og áður var en ég er sannfærður um að lúðrasveitin væri löngu fyrir bí ef ekki væri vegna þess hugsjóna- og baráttuanda sem jafnan hefur einkennt allt starf sveitarinnar. Þessi andi er smitandi og hann er sameinandi. Þótt Lúðrasveit verkalýðsins hafi orðið til á sundrungartímum þá er sveitin löngu orðin að eins konar samnefnara fyrir verkalýðshreyfinguna. Jafnan þegar leitað er til hennar um aðstoð þá bregst hún vel við kalli. Ég er sannfærður um að það á við um gervalla verkalýðshreyfinguna – hvar í samtökum sem okkur er að finna – að öll berum við hlýjar tilfinningar til Lúðrasveitar verkalýðsins.

 

Lúðrasveit verkalýðsins hefur iðulega leikið á baráttufundum og á hátíðasamkomum sem BSRB hefur staðið fyrir. Aldrei hefur það brugðist að sveitin hafi blásið okkur kraft í brjóst. Í mínum huga er jafnan hátíðabragur ríkjandi þegar Lúðrasveit verkalýðsins mætir á vettvang.

Fyrir ómetanlegt starf, fyrir kraftinn, gleðina og alla alla þá ánægju sem Lúðrasveit verkalýðsins hefur veitt okkur vil ég fyrir hönd BSRB færa þakkir og árnaðaróskir á hálfrar aldar afmæli jafnframt því sem ég óska sveitinni langra og farsælla lífdaga.

 

Ögmundur Jónasson