Fara í efni

Hugsjónaeldar loga

Ungt fólk í stjórnmálum hefur látið að sér kveða að undanförnu, hver hópur með sínum hætti. Fróðlegt er að virða fyrir sér hugsjónabálin því þar má sjá hvað ungt fólk telur brýnast að berjast fyrir. Ungir Vinstri grænir hafa hvatt til varðstöðu um sjálfstæði þjóðarinnar, krafist jafnréttis kynjanna og stungið niður penna um þau mál sem brenna á þjóðinni. Þar vil ég sérstaklega nefna margar mjög athyglisverðar greinar Katrínar Jakobsdóttur, formanns UVG, sem birst hafa í sumar um mennta- og kjaramál. Ungir Samfylkingarmenn sýndu lofsverð tilþrif þegar þeir skrifuðu páfa um mannréttindi samkynhneigðra. Einsog jafnan á þessum tíma árs hafa ungir sjálfstæðismenn  nokkuð látið til sín taka í umræðu um kjaraleynd en stöku maður úr þeirra röðum hefur einnig vikið orði að brennivíni. Umræðan um kjaraleynd gýs jafnan upp þegar skattaskýrslurnar eru birtar. Það er athyglisvert að einkum er það hátekjufólkið sem kveinkar sér og talar um friðhelgi einkalífsins þegar upplýst er um kjör þess. Gæti verið að samviskan hvísli að því að það kunni að hafa hrifsað heldur mikið í sinn hlut af sameiginlegum verðmætum þjóðarinnar? Best fari þess vegna á leyndinni. Þessi mannskapur virðist alltaf eiga vísan stuðning ungs hægri sinnaðs fólks sem réttlætir leynimakkið af brennandi hugsjón! Guðlaugur Þór Þórðarson, nýkjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins upplýsir um helstu baráttumál sín í viðtali á vefnum frelsi.is.( http://frelsi.is/netvidtalid/nr/1580) Þar er okkur sagt hvað þingmaðurinn hefur aðhafst frá því gengið var til Alþingiskosninga í maí: “Það má segja að eitt af fyrstu verkum Guðlaugs Þórs eftir að hann náði kjöri hafi verið að reyna að versla í matvöruverslunum á hvítasunnudag, en án árangurs. Svo vildi til að fjölmiðlar voru á staðnum og ræddu við þingmanninn um málið og var hann ekki sérlega sáttur…
Þó nú væri að þingmanninum væri ekki skemmt þegar lögregla meinaði honum að kaupa í soðið vegna laga um helgidagafrið. Eflaust má búast við mikilli sókn ungra sjálfstæðismanna á þingi til að breyta lögum sem vernda verslunarfólk gegn takmarkalausum opnunartíma verslana. Til að Guðlaugur Þór sé látinn njóta sannmælis skal tekið fram að í viðtalinu segir hann, að þótt hann vilji að lágmarksþjónusta verði alltaf tryggð þá  “sé sjálfsagt að taka tillit til hinna ýmsu sjónarmiða.”
Ekki veit ég hversu umburðarlyndur þingmaðurinn er þegar kemur að brennivíninu. Hann vill afnema ÁTVR, enda fráleitt að hans mati “að eingöngu opinberir starfsmenn höndli með áfengi”. Ungt fólk er aldeilis ekki á því segir Guðlaugur Þór og bindur sérstakar vonir við “yngra fólkið í Samfylkingunni.” Ekki skal ég um það dæma en hinu vil ég mótmæla að þessar hugmyndir, sem Guðlaugur Þór og félagar tala fyrir, hafi eitthvað með háleitar hugsjónir og jafnvel mannréttindi að gera einsog stundum er látið í veðri vaka. Hér er einfaldlega á ferðinni harðsvíruð hagsmunabarátta stóru verlslanakeðjanna sem eru staðráðnar að ná einokunarstöðu í áfengisverslun (einsog í annarri verslun) og ná þannig í eigin vasa risavöxnum arðinum af áfengissölunni. Mér finnst Guðlaugur Þór og félagar skulda okkur nánari skýringar og svör við rökum sem andstæðingar markaðsvæðingar brennivínssölunnar hafa sett fram um heilsufarsleg sjónarmið og peningaleg, að ógleymdri þjónustu við kaupandann, sem ÁTVR tryggir betur, t.d. með úrvali, en gerist þar sem smærri aðilar sýsla með þessa vöru! ( sjá t.d.: https://www.ogmundur.is/is/greinar/verslunarradid-gegn-hagsmunum-neytenda=)

Einnig væri fróðlegt að heyra rökstuðning Guðlaugs Þórs og félaga fyrir þeirri fullyrðingu í fyrrnefndu viðtali á frelsi.is að það væri Ríkisútvarpinuauðveldara… að starfa” sem hlutafélag en reyndin er við núverandi rekstrarform. Þetta var fullyrðing sem við heyrðum oft haldið fram áður en Pósti og síma var breytt í hlutafélag án þess þó að fá nánari skýringar. Auðvitað má til sanns vegar færa að auðveldara sé fyrir stjórnendur hlutafélags – þar sem hlutabréfið er eitt – að ráðskast með viðkomandi stofnun og þá fjármuni sem henni fylgja. En sýnir reynslan að þetta hafi verið almenningi til hagsbóta? Er ekki kominn tími til að ræða það? Gaman væri að fá, þótt ekki væri nema nokkrar línur, frá Guðlaugi Þór og félögum um þetta efni.