Fara í efni

HUGLEIÐINGAR UM ILMINN AF LÍFINU


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 22/23.10.22.... 
Þegar ég var við nám í sagnfræði við háskólann í Edinborg minnist ég þess að einhverju sinni þegar veðrið var eins gott og hugsast gat, hlýtt og logn og sólin skein í heiði, að mig langaði til að gera allt annað en skyldan bauð. Ég vildi vera úti og njóta veðurblíðunnar. Vandinn var sá að námið krafðist þess að ég sæti við á bókasafninu, hjá bókunum sem ég þurfti að rýna í.

Og þarna stóð ég fyrir utan bókasafnið og andvarpaði. Bar þá að kunningja minn, indverskan speking og liggur nærri við að ég kalli hann það með stórum staf því að djúpvitur var hann.
En hvers vegna ertu að fara inn á safnið ef þig langar ekki til þess, spurði hann í forundran, sestu bara út í garðinn fjarri öllum bókum og hugleiddu hvað tilveran þar er dásamleg.
Jú, en svo er hitt, svaraði ég, að mig langar líka til að sinna náminu, auka við þekkingu mína og víkka huga minn. Til þess er ég hingað kominn.
Já, hugleiddu allt þetta og gerðu síðan það sem þig helst langar til. Þegar þú hefur frelsað huga þinn velurðu það sem þú telur að veiti þér mesta ánægju.
Ég hugleiddi þessi orð og gekk síðan glaður inn á safnið og fór á kaf í stjórnmálaheimspeki nítjándu aldar, að gera nákvæmlega það sem mig langaði helst til. Þegar allt hafði verið vegið og metið var þetta niðurstaðan.

Þetta er speki sem er ekki ný af nálinni. Þannig takast alkóhólistar á við fíkn sína, svo þekkt dæmi sé tekið, með því að beina löngunum sínum annað en ofan í bjórglasið. Það held ég að hljóti að vera skýringin á AA fundunum þar sem menn koma saman til að minna hver annan á hve gott sé að vera ófullur og hve margt annað sé eftirsóknarverðara en að standa á barnum.

Annars ætlaði ég að fara í allt aðra átt þegar ég hóf þessi skrif. Ég ætlaði að hefja eins konar leik við lesendur um val á bestu augnablikum lífsins og byrja leikinn á því að nefna dæmi sem hver og einn myndi síðan botna á sína vísu yfir kaffibollanum og helgarblaðinu; á ég þá ekki endilega við hin augljósu augnablik, þegar við náum uppá fjallstindinn eða þegar afi hlustar á barnabarnið leika á fiðlu, og þá ekki heldur og reyndar alls ekki nunnurnar tvær sem ég sá í Betlehem, langt að komnar en nú á nákvæmlega þeim stað þar sem ætlað er að Jesús hafi fæðst. Þar sem þær sátu brosandi mildilega með hönd á bænabandinu þóttist ég sjá inn í hina fullkomnu sælu.

En það eru augnablikin í hinu daglega lífi sem ég er að leita að og þar leita ég mörgum hæðum neðar þessari fullsælu. Svarið við spurningu minni fann ég í dagblaði fyrir nokkrum árum. Hver eru bestu augnablikin í þínu daglega lífi var spurt.  
Og eitt svarið þótti mér óborganlegt. Það var á þessa leið: Besta augnablikið er á laugardagsmorgni þegar ég sest við morgunverðarborðið, helgin framundan, morgunverðurinn með ilmandi kaffibolla er fyrir framan mig og dagblaðið bíður þess að láta fletta sér. Þetta er augnablikið.

Og takið eftir, það er tilhugsunin við að hefja lesturinn yfir ilmandi kaffinu sem skapar augnablikið. Það er ekki kaffið sjálft eða það sem stendur í blaðinu.
Það er hið huglæga, að hlakka til, að langa til. Það er ilmurinn sem máli skiptir.
Svo flettum við blaðinu. Forsætisráðherra Breta talar um möguleikann á að heyja takmarkað kjarnorkustríð. Og ráðherrar hins herlausa Íslands kinka kolli.
En þá er líka ilmurinn horfinn.