Fara í efni

HRYÐJUVERKAMAÐUR MEÐ HRYÐJUVERKAMÖNNUM Í SIDNEY Í ÁSTRALÍU


Að undanförnu hef ég tekið þátt í nokkuð mörgum vef-ráðstefnum um málefni Kúrda og hafa þær verið skipulagðar frá Þýskalandi, Bretlandi, Suður-Afríku og í morgun var ég á ráðstefnu sem skipulögð var frá Sidney í Ástralíu.
Þessar umræður hafa verið upplýsandi og gefandi. Á ráðstefnunni sem suður-afríska verkalýðshreyfingin skipulagði á dögunum var auk Kúrda fjallað um viðskiptaþvinganir gagnvart Venesuela (sem Ísland vel að merkja tekur þátt í eins og öllu sem NATÓ vill að við dönsum með í), ofbeldið gagnvart Palestínumönnum var einnig á dagskrá og reyndar víðar komið við.  Á þessum fundum hefur kveðið við nokkuð annan tón en meginstraumsfréttamiðlar miðla í sínum fréttaflutningi.

Facebook ritskoðar

Á fundinum í morgun voru ræðumenn auk mín, Clare Baker frá bresku verkalýðssamtökunum Unite, John Tully, rithöfundur og fræðimaður og Mansour Razaghi, baráttumaður úr röðum Kúrda, búsettur í Ástralíu. Margir aðrir tóku til máls á fundinum sem Sarah Hathway frá áströlskum verkalýðssamtökum stýrði.
Á þessum fundi eða ráðstefnu var sagan rakin og krufin, gerð grein fyrir stöðu mannréttindamála í Tyrklandi og rætt hvað gera skuli. Það er ekki heiglum hent að finna út hvað það ætti að vera þegar þeim sem vilja kveða sér hljóðs um þessi mál er stöðugt neitað um orðið.
Þannig var þessi fundur okkar í morgun auglýstur á samfélagsmiðlum framan af en þess var þó skammt að bíða að hann yrði fjarlægður af Facebook, sagt að hann væri ekki í samræmi við þær kröfur sem sá miðill gerði til aðila sem þar vildu vera.

NATÓ skilgreinir

Þannig var, að á mynd sem fylgdi umfjöllun fundarboðenda mátti sjá fólk í kröfugöngu með kúrdíska fána og þar mátti sjá veifu með mynd af Abdullah Öcalan, hinum fangelsaða leiðtoga Kúrda. Þar með var ballið búið. Tyrkland og stuðningsríkin, þar á meðal í NATÓ skilgreina Öcalan sem hryðjuverkamann og þau sem hjálpa hryðjuverkmönnum eru þá líka að taka þátt í hryðjuverkastarfsemi. Ergo, fundur okkar var því í reynd hryðjuverkastarfsemi og við þátttakendur þá væntanlega hryðjuverkamenn. Slíka starfsemi og slíka menn auglýsir ekki hin grandvara facebook síða!
 
Persónulegu frásagnirnar

Stundum eru það persónulegu sögunar sem hreyfa mest við manni. Einn ræðumanna var Kúrdi frá Írak, giftur íranskri konu, einnig hún var Kúrdi. Þau höfðu verið gift í þrjátíu ár. Hjónabandið var þó ekki viðurkennt af yfirvöldum og dóttir þeirra hafði aldrei fengið viðurkennt fæðingarskírteini sitt sem Kúrdi. Einhvern tímann fyrir allöngu síðan var fjölskyldan að fara yfir landamæri og voru þau stöðvuð þar og leit gerð í farangri. Heyrðist mér þetta hafa verið nærri Slimani á landamærum Íraks og Írans.
Nema hvað sögumaður hafði verið með kúrdískt tímarit í farangri sínum, ósköp saklaust tímarit. Hvað er þetta, hafði vörðurinn spurt með þjósti. Sögumaður sagði að í barnaskap sínum hefði hann sagt að þetta væri kúrdískt tímarit. Kúrdískt! Slíkt er ekki til. Þið farið ekki fet fyrr en að lokinni yfirheyrslu og yfirlýsingum af ykkar hálfu!

Segið að Kúrdar séu ekki til

Hófst nú margra tíma yfirheyrsla og tilraun til heilaþvottar.  Fjölskyldunni var sýnt landakort og spurt hvar Kúrdistan væri. Henni varð svarafátt. Að lokum var fjölskyldan, hvert frammi fyrir öðru, eiginkona, eiginmaður og barn, látin segja tuttugu sinnum hvert um sig hátt og skýrt, Kúrdistan er ekki til, kúrdíska er ekki til, engir Kúrdar eru til.

Þetta var það minnsta sem við máttum þola, klykkti sögumaður út með. Á endanum fór ég til fjalla og þaðan tók ég þátt í baráttu gegn ofbeldinu. En er það bara ég sem telst vera hryðjuverkamaður?
Ekki þótti mér svo vera. Varla við því að búast enda hryðjuverkamaður sjálfur.