Fara í efni

Hrókeringar í Stjórnarráði og næsti bær við herinn?

Nafn Árna Magnússonar kom óvænt upp sem nýr félagsmálaráðherra landsins. Hann er óskrifað blað í pólitík að öðru leyti en því að hann er náttúrlega framsóknarmaður fram í fingurgóma. Árni á rætur inn í RÚV í gegnum föður sinn, Magnús Bjarnfreðsson, og sjálfur var hann um skeið fréttamaður Sjónvarps. Þetta eru traustir feðgar og að mínum dómi er Árni ekki slæmur kostur fyrir skjólstæðinga Félagsmálaráðuneytisins. Bakhjarl hins nýja félagsmálaráðherra í stjórnarmeirihlutanum er hins vegar ekki traustvekjandi og hótanir um að rýra tekjur ríkissjóðs eru ekki góðar fréttir fyrir ábyrgðarmann Félagsmálaráðneytisins.

Björn Bjarnason fær dómsmálin og held ég að nú hljóti sumir að gleðjast. Björn hefur nefnilega getið sér orð fyrir að vera mestur áhugamaður um að hér á landi verði komið upp innlendum her. Ekki hefur þessi æskudraumur Björns orðið að veruleika en nær borðalögðum búningum kemst hann ekki en einmitt í dómsmálaráðuneytinu. Það ráðuneyti hlýtur að teljast næsti bær við herinn.

Væri það endilega úr vegi að nýr dómsmálaráðherra fengi að bera eins og einn borða og jafnvel kaskeiti við embættisstörf sín? Hann tæki sig vel út í þingsalnum og við sjáum þá fyrir okkur þegar þeir koma saman til fundar, borðalagðan dómsmálaráðherrann og utanríksráðherrann, til að ræða hermálin; svona eins og gert er í alvöru herveldum. Utanríkisráðherrann hefur náð talsverðum þroska á því sviði eins og við þekkjum og nýi dómsmálaráðherrann er tilbúinn í slaginn.

En á meðal annarra orða, hvað veldur því að Sólveig Pétursdóttir er látin víkja sem dómsmálaráðherra? Það lá vissulega í loftinu. Ekki hefur lítið gengið á í fjölmiðlum að undanförnu  þar sem henni hefur verið fundið allt til foráttu. Sólveig Pétursdóttir er vissulega íhald. Það er þungur kross að bera og myndi ég án efa skrifa upp á alla gagnrýni sem tengist þeim krossi. En það vil ég segja, að sem formaður BSRB hef ég oftar en einu sinni þurft að leita til Sólveigar Pétursdóttur í embætti dómsmálaráðherra. Þar hefur hún reynst málefnaleg og fjarri þeirri mynd sem dregin hefur verið upp af henni í fjölmiðlum á undanförnum dögum

Tómas Ingi Olrich verður sendiherra í París með vorinu. Mér heyrist honum lítast vel á það og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kemur í menntamálin um áramót og síðar Sigríður Anna Þórðardóttir í umhverfismálin. Við óskum þeim góðs gengis og að sjálfsögðu öðrum sem nú láta af störfum eða koma til nýrra starfa. Að mörgu leyti er eftirsjá í Páli Péturssyni úr þinginu. Þótt hann væri kominn í slæman félagsskap síðustu árin sá ég alltaf í honum sterka vinstri taug.

Það er nú aldeilis munur fyrir formenn stjórnarflokkanna að geta ráðskast með utanríkisþjónustuna og alla stjórnsýsluna í hrókeringum sínum. Fyrir þjóðina er það hins vegar hörmuleg niðurlæging að verða vitni að þessum aðförum öllum. Alvarlegast er náttúrlega hvernig komið er fyrir embætti Forseta Alþingis að þessu leyti. Það á að vera hlutverk Alþingis að kjósa hann en nú verðum við hins vegar vitni að því að embættið er orðið skiptimynt á borðum þeirra Davíðs og Halldórs.