Fara í efni

HRINDUM AÐFÖRINNI AÐ ÍBÚÐALÁNASJÓÐI!


Menn ætluðu varla að trúa sínum eigin eyrum þegar Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, sagði við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í vikunni að til stæði að þrengja að Íbúðalánasjóði. Þetta er að vísu aldrei orðað á þennan veg. Þvert á móti, nú eigi að rýmka um fyrir sjóðnum, gera hann fleygan á markaði. Ríkið eigi að beita sér einvörðungu að hinum fátækustu, gagnvart þeim eigi ríkisábyrgðin heima. Aðrir eigi að vera á markaðskjörum. 

Hærri vextir og þyngri skattabyrðar

Á mannamáli þýðir þetta hærri vextir og þyngri byrðar fyrir skattgreiðendur.  Hvers vegna í ósköpunum þá að gera þetta? Jú, þetta bætir samkeppnisstöðu bankanna á húsnæðismarkaði og þetta er líklegra - segja þeir sem tala fyrir þessum breytingum - að forða okkur frá reiði lögfræðinga í Brussel.  Lögfræðingarnir, sem hafi sérhæft sig í heilagri markaðsritningu Evrópusambandsins, segi að húsnæðiskerfi þjóða eigi einvörðungu að stjórnast af markaðslögmálum og megi ekki eiga sér félagslegan bakhjarl. Brussel ætli hins vegar að sjá í gegnum fingur sér varðandi fátækraaðstoð. 
En hvers vegna í ósköpunum er þetta mál til umfjöllunar hjá markaðslögreglu Evrópusambandsins?  Það er vegna þess að íslensk fjármálafyrirtæki hafa kært íslenska ríkið þangað suðureftir!

Látum ekki beygja okkur!

Við þessu er þetta tvennt að segja:
1) Höfum að engu þann boðskap sem hundsar lýðræðislegan vilja og bannar okkur að reka siðað og réttlátt þjóðfélag.
2) Í öðru lagi hlýtur það að vera skýlaus krafa að samtök  íslenskra fjármálafyrirtækja dragi umsvifalaust kærur sínar til baka. Að sjálfsögðu áttu þau aldrei að kæra en nú ber þeim siðferðileg skylda til að afturkalla kærumálin. Rökin hljóta að vera öllum augljós.