Fara í efni

Hrindum aðför útvegsmanna að verkalýðshreyfingunni


Útvegsmenn og sjómenn hafa staðið í samningum um kaup og kjör. Ekki síst hafa það verið réttindi sjómanna sem hefur verið tekist á um. Á undanförnum árum hefur LÍÚ  löngum skákað í því skjólinu að ríkisvaldið skæri samningamenn útvegsmanna niður úr snörunni þegar í harðbakkann slær. Þegar sjómenn hafa beitt verkafallsvopni hefur ríkisvaldið einfaldlega sett lög á sjómenn. Út frá þessu hefur verið gengið. Á undanförnum tíu árum hafa fjórum sinnum verið sett lög á sjómenn. Af þessari ástæðu hafa útvegsmenn treyst sér til að sýna sjómönnum meiri óbilgirni en nánast nokkur hópur atvinnurekenda hefur sýnt viðsemjendum sínum á launamarkaði.
Í þjóðfélaginu hefur ríkisvaldið sætt vaxandi gagnrýni vegna lagainngripa í kjaradeilur útvegsmanna og sjómanna og eru hagsmunaþræðirnir sem liggja á milli LÍÚ og ríkisstjórna sem hér hafa setið undangenginn áratug öllum ljósir.

En hvað skal til bragðs taka á LÍÚ bænum ef ekki er lengur hægt að beita ríkisvaldinu fyrir sig? Þá er reynt að finna nýjar leiðir til að grafa undan stéttarsamstöðu sjómanna. Sú frétt að útgerðarfélag hafi samið við áhöfn sína á bak við Sjómannasambandið er mjög alvarleg og kemur óneitanlega í opna skjöldu. Ekki vegna þess að það hafi ekki þekkst áður að reynt sé að brjóta verkalýðssamtök niður með mútum og hótunum, heldur vegna hins að menn héldu að sæmileg sátt hefði myndast í samfélaginu um að virða grundvallarreglur á vinnumarkaði. Þetta er brot á sáttmála sem hefur verið við lýði í landinu um langt skeið. Að forminu til er Sólbakur ehf, fyrirtækið sem í hlut á, ekki aðili að LÍÚ þannig að við fyrstu sýn eru heildarsamtök LÍÚ laus allra mála og með hreina samvisku. En í ljósi söginnar og þeirrar stöðu sem LÍÚ er nú í gagnvart sjómönnum má hverju barni vera ljóst að kjarasamningurinn sem nú hefur verið gerður á bak við Sjómannasambandið er ekki gerður án vitundar og samþykkis heildarsamtaka útvegsmanna. Hann er gerður í skjóli þeirra og á ábyrgð þeirra: Á ábyrgð LÍÚ. Út frá þessu má ganga nema fram komi mjög hörð viðbrögð frá samtökum útvegsmanna.

Það bar nokkuð á því fyrir áratug eða svo að ungir frjálshyggjumenn hvettu til atlögu gegn starfsemi verkalýðsfélaga og vildu þau helst feig. Síðan hefur slík skemmdarstarfsemi legið í láginni. Nú er hins vegar greinilega hafin skipuleg sókn gegn starfsemi verkalýðsfélaga og er það LÍÚ sem ríður á vaðið. Öflug verkalýðshreyfing er mótvægi gegn fjármagnsöflunum og það er samstöðu innan hennar að þakka að ekki er valtað yfir launafólk, ekki bara í kjarasamningum heldur á vinnustöðum dag hvern og í almennum samskiptum í landinu. Það er þessari sömu samstöðu að þakka að tekist hefur að byggja hér upp velferðarþjóðfélag. Þegar Margrét Thatcher komst til valda í Bretlandi undir lok áttunda áratugarins sagði hún að fyrsta verk Íhaldsflokksins ætti að vera að veikja verkalýðshreyfinguna sem hún kallaði einokunarhring á launamarkaði. Þetta tókst breska Íhaldinu illu heilli. Þar með var opnað á aukna misskiptingu í bresku samfélagi og niðurbrot velferðarkerfisins. Hér eru sams konar niðurrifsöfl á ferðinni og er brýnt að allir þeir sem vilja stuðla að jöfnuði í þjóðfélaginu og að lýðræðislegar hreyfingar fái dafnað, rísi upp og beiti sér af alefli gegn þessari aðför. Aðför útvegsmanna að sjómönnum er ekki aðeins stefnt gegn sjómönnum heldur öllu launafólki í landinu.