Fara í efni

HRÍÐSKOTABYSSUR TRYGGJA EKKI ÖRYGGI

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ

Birtist í DV 24.10.14.
Þegar ég steig fyrst inn á vettvang Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, þar sem ég síðar átti eftir að gegna formennsku á þriðja áratug, kynntist ég mörgum mætum lögreglumönnum. Þetta var í kringum 1980. Viðhorf lögreglumanna á þessum tíma skiptust nokkuð í tvö horn en yfirgnæfandi innan Landssambands lögreglumanna var rödd hófsemi.
Alltaf gat maður gengið að því vísu þegar maður settist inn á kontór Einars Bjarnasonar, sem um þetta leyti var formaður Landssambandsins, til að hlusta á sér eldri og reyndari menn, að hvatt yrði til yfirvegunar og víðsýni, að öll mál bæri að skoða frá öllum hliðum.

Hætta á stigmögnun ofbeldis

Eitt af þeim málum sem þeir félagarnir í lögreglunni voru stöðugt að gaumgæfa var spurningin um hvort heppilegt væri að lögreglan bæri vopn. Niðurstaðan, ekki aðeins á þessum tiltekna kontór, heldur á meðal lögreglumanna almennt, var sú að þetta væri ekki hyggilegt. Vopnin myndu ekki færa lögreglunni vörn í viðureign við illskeytt öfl, þvert á móti væri líklegt að þau leiddu til stigmagnandi ofbeldis.
Mikið vatn er runnið til sjávar frá því ég ræddi þessi mál við Einar Bjarnason og marga hans líka innan lögreglunnar úr forystuliði hennar.

Aflífa skepnur, ekki fólk

Þannig er nú Sérsveit lögreglunnar komin til sögunnar og er hún vopnum búin ef til þarf að taka. Ekki hef ég heyrt því andmælt - þótt efsemdirnar séu stöðugt uppi enda ástæða til eins og dæmin sanna -  né hinu að lögregla í dreifðum byggðum landsins hafi skotvopn meðferðis á löngum ferðum sem hægt væri að grípa til ef aflífa þyrfti skepnur sem orðið hefðu fyrir bíl, svo dæmi sé tekið. En ekki til að skjóta fólk.
Ekki veit ég hvernig landið liggur núna innan lögreglunar almennt. Hitt veit ég af öllum þeim fundum og ráðstefnum sem ég sat með lögreglumönnum í tíð minni sem innanríkisráðherra að þeir höfðu miklar áhyggjur af stöðu lögreglunnar, hve aðþrengd hún væri fjárhagslega, manaflaþörf mikil og tækjakostur allur að drabbast niður. Margir viðruðu áhyggjur af eigin öryggi. Áhyggjurnar tengdust einkum mannfæðinni, hve varasamt það gæti verið að fara fáliðaðir inn í ofbeldsfullt umhverfi.

Mannekla veldur áhyggjum

Engin kallaði eftir vopnum að því er mig reki minni til. En áhyggjur vegna mannfæðar voru fullkomlega eðlilegar og áttu ekki að koma neinum á óvart.
Í kjölfar hrunsins var skorið niður við lögregluna um meira en þrjá milljarða á ársgrundvelli, reikanð í krónum talið á árinu 2013. Munaði um minna! Að sjálfsögðu sagði þetta til sín.
Allt þetta lét ég færa til bókar og síðan til umræðu inn í sali Alþingis. Í kjölfarið var skipuð þverpólitísk nefnd til að gera tillögur um úrbæur. Tillögur nefndarinnar gengu út að tryggja lögreglunni fjárráð til að vega upp niðurskurðinn svo hún gæti fjölgað á ný í liði sínu og bætt búnað sinn.

Óskhyggja eða bíræfni?

Hvergi var minnst á hríðskoðtabyssur í þessum gögnum. Það er bara Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, sem telur sig hafa séð þessar byssur í skýrslum sem unnar voru á mínum vegum. Svo hefur nefnilega verið á honum að skilja í viðtölum í öllum helstu fjölmiðlum landsins, að ákvörðun lögreglunnar að bæta við sig 150 hríðskotabyssum til að gera almennu lögregluliði aðgengilegt, hafi verið svar við beiðni minni! Hið hlálega er að textarnir sem Jón Bjartmarz vísar til byggja á ástandslýsingu lögreglunnar sjálfrar. Þar er hins vegar engar vopnvæðingaróskir að finna ekki einu sinni frá honum sjálfum komnar,sat hann þó þessa fundi. Óskhyggjan lætur ekki að sér hæða, nema það sé bíræfnin sem hér er að verki.

Lögregla á lof skilið

Það er svo aftur rétt að umhverfi íslensku lögreglunnar er erfiðara og óvægnara en það var fyrir nokkrum áratugum. Hér hafa verið að hreiðra um sig skipulagðir glæpahópar með einstaklinga innanborðs sem svífast einskis. Í ráðherratíð minni var ákveðið í góðri samvinnu lögreglu, tollstjóraembættisins, innanríkisráðuneytisins og Alþingis að gera gangskör að því að veikja, helst uppræta með öllu, slíka hópa. Þetta hefur tekist vonum framar þótt verkinu sé engan veginn lokið - og verður það sennilega seint. Þarna á lögreglan mikið lof skilið. En vanmetum heldur ekki aðkomu almennings og þann mikla stuðning sem þaðan kemur.

Það er byrði að bera vopn!

Oft hef ég dáðst að íslenskum lögreglumönnum. Mér er það minnisstætt við mótmæli hér fyrr á tíð hve viðmót lögreglunnar var yfirleitt yfirvegað þegar hitnaði í skapi manna. Ekki var það þó einhlítt. Einkum voru það ungir óreyndir lögreglumenn sem gátu verið trektir en hinir eldri yfirleitt sallarólegir. Þeir unnu okkur á sitt band með hægðinni.
Lærdómurinn sem ég dreg af þessu er sá að ekki megi undir nokkrum kringumstæðum leggja það á unga óreynda lögreglumenn að fá vopn í hendur til að verja mig eða sig eftir atvikum. Við skuldum hins vegar þessum mönnum og samfélaginu öllu að búa þaning að lögreglunni að hvorki henni né okkur sem samfélagi stafi ógn af öflum sem vilja okkur illt.