Fara í efni

HRAFNINN …


Þegar við Krummi, eins og við kölluðum alltaf skólafélaga okkar og vin, Hrafn Gunnlaugsson, gengum heim úr Menntaskólanum vestur í bæ þar sem við áttum heima, þá flaug hann oft hátt.

Ímyndaðu þér Ömmi, að ofan úr himnunum þarna úr vestri kæmi risastór málmkúla, ferlíki, sveiflað úr krana skýjum ofar. Ófreskjan kæmi með ógnarhraða og eyðileggingarkrafti, næmi við jörð þegar hún nálgaðist mannvirki Melavallarins, húsakost og bárujárnsgirðinguna, og sópaði þessu öllu burt sem ekkert væri!

Ég varð agndofa og fannst ég skynja kraftinn í tilverunni.

Krummi kunni á ímyndunaraflið.  

Í gær horfði ég á Hrafninn flýgur í Sjónvarpinu, kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar frá árinu 1984. Mér þykir hún eldast ágætlega. Held meira að segja að hún hafi batnað. Þó býður mér í grun að höfundurinn hefði látið freistast af einhverjum tæknibrellum samtímans ef þær hefði verið í boði fyrir nær hálfri öld þegar myndin var gerð. Veit það þó ekki. Þetta var allt þarna.

Hrafninn flýgur er svakaleg á köflum og ber þannig sterk höfundareinkenni. En krafturinn er þarna og ímyndunaraflið og náttúrlega frábærir leikarar. Hver öðrum betri, sannkallað landslið.

En myndin er Hrafns.

Og í gær flaug hrafninn hans.
En floginn á braut er hann ekki.

(Myndin er tekin af visir.is)