Fara í efni

HRAÐUPPHLAUP Á SPRENGISANDI


Fréttahaukurinn Sigurjón M. Egilsson á lof skilið fyrir þátt sinn Sprengisand á sunnudagsmorgnum á Bylgjunni. Sunnudagarnir eru orðnir mest spennandi fréttadagarnir með Sprengisandinn á Bylgjunni annars vegar og Silfur Egils á RÚV hins vegar. Þar var mættur fjölmiðlakappinn og fjármálarýnirinn Max Kaiser síðastliðinn sunnudag og fór hann á kostum gegn spákaupmennsku og græðgiskapítalisma. Hafði hann sitthvað að segja um Icesave, svo sem þá ósvinnu að fjárfesta fé sitt í áhættusjóði einsog allir hafi vitað að Icesave hafi verið með sína háu vexti og heimta síðan að skattborgarinn stæði undir tapinu ef illa færi! Það er nú það. Þar kemur regluverk ESB til sögunnar sem setur strik í reikninginn einsog við þekkjum. Sjá http://ruv.is/heim/ahugavert/nanar/store218/item323095/

En það er hraðupphlaup Sigurjóns M. Egilssonar á Sprengisandi sem er tilefni þessara skrifa minna. Þátturinn sem fjallaði um hrunið og aðdraganda þess var einstaklega vel unninn - af vandvirkni og skilningi. Sigurjón fór í gegnum gögn opinberra aðila, Seðlabankans og fleiri, og ræddi við valinkunna einstaklinga.
Af handahófi kemur upp í hugann ábending Þórðar Friðjónssonar Kauphallarforstjóra um að í árslok 2007 hafi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sagt að horfur í efnahagslífi Íslands væru öfundsverðar! Það er nefnilega það. Þetta eru ráðgjafar okkar og leiðsögumenn. Skyldi vera meira að marka Alþjóðagjaldeyrissjóðinn núna?
Í þættinum heyrðum við óborganlegt viðtal við Hannes Hólmstein sem fjallaði um "dauðu" eignirnar sem vaktar voru til lífsins með einkavæðingunni og hve mikilvægt það væri að gefa nú hressilega í !!!
Umhugsunarverð var spurning Sigurjóns til Gylfa Zoega, prófessors við Háskóla Íslands um hvers vegna varnaðarorð hefðu ekki komið úr þeirri áttinni. Væri ekki eitthvað til sem héti borgaraleg skylda? Það eru takmörk fyrir því hvað „utanaðkomandi" aðilar gátu gert svaraði háskólaprófessorinn. Ekki er ég sammála þessu. Ég tel þvert á móti að það sé skylda akademíunnar að vera á tánum og þegar þjóðarhagur er í húfi er enginn „utanaðkomandi".

Sigurjóni vil ég þakka þennan eðalþátt og öllum þeim sem fram komu í honum - Gylfa Zoega og öðrum - og vörpuðu ljósi á viðfangsefnið.
Sjá: http://bylgjan.visir.is/?PageID=2666