Fara í efni

HOUSTON EÐA AMSTERDAM EÐA ...


Í vikunni var undirritað samkomulag um að efla almenningssamgöngur á þéttbýlissvæðinu á suðvestur- horninu. Samkomulagið sem ríki og sveitarfélög á svæðinu standa að er tilraunaverkefni til tíu ára. Sveitarfélögin á svæðinu falla frá því að gera kröfu um stórframkvæmdir í vegamáum á vegum ríkisins  - alla vega framan af þessu tímabili - en milljarði af hálfu ríkis og framlagi frá sveitarstjórnum að auki verði varið til þessa framtaks. Þar verður horft til almenningsvagna, hjólreiða og alls þess sem flokka má undir almenningssamgöngur.
Dýrt? Já, en kemur til með að spara peninga fyrir samfélagið og fyrir einstaklinga þegar fram líða stundir. Samgöngur eru nú annar stærsti útgjaldaliður heimilsbuddunnar, 16%, nokkuð  á eftir húsnæðiskostnaði sem vegur um 25%. Maturinn er talsvert lægri útgjaldaliður eða 11%.
Eldsneytið í heiminum er ekki á niðurleið! Einkabíllinn á ekki eftir að verða ódýrari í rekstri á komandi árum. Ef almenningssamgöngur eru ekki viðunandi er hætt við að efnalítið fólk komist ekki leiða sinna á við hina efnameiri. Það þýðir mismunun.
Hér þarf því að grípa í taumana. Setja almennningssamgöngur jafnfætis - helst ofar -  einkabílnum . Sú lausn mengar líka minna og færir okkur á suðvesturhorninu inn í borgarsamfélag sem þegar er orðið að veruleika. Valið stendur á milli Houston í Texas eða Amsterdam í Hollandi. Eða kannski mitt á milli. Það held ég að verði íslenska lendingin. Mér finnst hún góð.
Undirskriftin góða innsiglaði ásetning um að þetta yrði lendingin.

Það er þeirra sem við borðið sitja að skapa skilyrðin og greiða leiðina. Viljayfirlýsinguna undirrituðu þau Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri, formaður Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, og Eiríkur Bjarnason, forstöðumaður áætlanadeildar hjá Vegagerðinni. Fyrir aftan þau standa: Sigurbergur Björnsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, sviðstýra hjá Reykjavíkurborg, Páll Guðjónsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Ögmundur Hrafn Magnússon, lögfræðingur í fjármálaráðuneytingu, og Þorsteinn R. Hermannsson, verkfræðingur í innanríkisráðuneytinu.