Fara í efni

HÖFUM VIÐ EKKERT LÆRT?

Matseðill fjárfestanna
Matseðill fjárfestanna


Í kauphallar- og verðbréfaheimum ríkir gleði þessa dagana. Fólkið sem vildi „Einfaldara Ísland" er að taka við stjórnartaumunum í landinu að nýju; flokkarnir sem skópu aðstæður fyrir mesta efnahagshrun Íslandssögunnar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur,  eru í þann veginn að koma sér fyrir í Stjórnarráðinu í umboði 51% landsmanna.
Einfaldara Ísland, sem átti að þýða Ísland laust við aðhald og regluverk, einkum í fjármálakerfinu, einkenndist af látlausri hvatningu til fjárfesta um að láta til sín taka, enda staðföst trú ráðafólksins að á verðbréfamörkuðunum yrðu verðmætin til.
Kannski er það táknrænt fyrir þessi tímamót að nýútkomið er blað, sem heitir Kauphallarblaðið.
1. tölublað, 1. árgangs var að líta dagsins ljós. Á forsíðu er boðuð kynning á matseðli fjárfestanna og vísað í umfjöllun um lán til hlutafjárkaupa. Og að sjálfsögðu er lögð sérstök áhersla á konur á verðbréfamarkaði og enn eina ferðina ýtt undir þá sögufölsun að konur séu öðru vísi en karlar við að virkja eignagleðina eins og það einhvern tímann hét. Og viti menn í blaðinu er að finna tilvísan til þess að braskið örvi framleiðni vinnuafls og leiði til betri lífskjara!
Eitt er víst að sumir hafa ekkert lært.