“HÓFLEGT GJALD FYRIR HVERT LÍK”
Vefmiðill Morgunblaðsins birti okkur þá frétt yfir hátíðarnar, nánar tiltekið á jóladag, að til skoðunar væri í ríkisstjórn að rukka fyrir geymslu á líkum. Allt væri yfirfllullt af látnu fólki en skortur á geymslum fyrir hina látnu.
Ráðið hlyti að vera að rukka aðstöðugjald, eins konar líkgeymslugjald, og reyna þannig að koma stjórn á geymslumálin.
Ég gef mér að hugsunin sé þá sú að byggja inn í útfararferlin hvata til að að láta jarðarfarir ekki dragast á langinn og taka þar með óþarflega lengi frá eftirsótt hillupláss. Fyrir braðgið myndu allir hafa hraðan á og gefur auga leið að því minni efni þeim mun hraðari yrðu ferlin.
Dómsmálaráðherrann Guðrún Hafsteinsdóttir orðaði þetta á markvissan, ef þá ekki snilldarlegan hátt á mbl.is: „Rekstur líkhúsa kostar og einhver þarf að greiða þann kostnað. Annað hvort greiðir ríkið þetta og innheimtir skatttekjur af öllum landsmönnum til að standa undir þessu eða þá að tekið er hóflegt gjald fyrir hvert lík sem stendur undir þessum kostnaði. Það finnst mér eðlileg nálgun.“
Spurningin sem hýtur að vakna er þessi: Viljum við allt á markað, lifandi fólk og látið?
Ég ætla að leyfa mér að spyrja hvort við eigum ekki bara að gera þetta saman án seðla og greiðslukorta?
Aðuvitað kostar allt en ekki er þar með sagt að þurfi að rukka fyrir allt.
Stundum eru peningar ekki æskilegur milliliður í samskiptum.
Kári sendi heimasíðu minni þessa vísu af tilefni orða dómsmálaráðherra:
Rétta hillu að lokum leigja,
laus úr jarðarbandinu.
Það er orðið dýrt að deyja,
dvelja í sumarlandinu.