Fara í efni

HJÁLMAR OG STÍGUR

Hjálmar og Stígur
Hjálmar og Stígur

Það ber vott um rannsóknarástríðu Fréttablaðsins að vera búið að finna það út að ég hafi einhvern tímann verið þeirrar skoðunar að flugvöllurinn ætti að hverfa úr Vatnsmýrinni í Reykjavík. Um þetta fjallar Stígur blaðamaður á leiðarasíðu blaðsins í dag. Ég get staðfest að þetta er hárrétt.
Ég hef stundum rifjað það upp í kunningjahópi hvernig það gerðist rétt fyrir atkvæðagreiðsluna um flugvöllinn árið 2001, að ég hefði komist að þessari niðurstöðu, sagt frá henni opinberlega aðspurður,  en síðan séð sáran eftir því enda um skammvinnan viðsnúning að ræða. Mér þótti ég hins vegar skuldbundinn að standa við orð mín þegar kom að atkvæðagreiðslunni.

Brá nú svo vel við að kona mín sem er því fylgjandi að flugvöllurinn fari - og er enn þeirrar skoðunar - bauðst til að skipta við mig þannig að ég kysi gegn flugvellinum en hún með og héldist þá atkvæðamengið á heimilinu eðlilegt!  Þetta varð úr og höfum við lengi hent að þessu gaman.

Hins vegar er ég hlynntur kúvendingum, hvort sem er í þessu máli eða öðrum. Fólk á að geta skipt um skoðun ef það kemur auga á ný sannfærandi rök í máli eða aðstæður breytast. Það sem til dæmis hefur breyst frá þessum tíma er að við höfum séð áform um hvað gera eigi við svæðið fari flugvöllurinn, það hefur líka breyst  að kostnaður við aðra valkosti er orðinn augljósari og mikilvægi flugvallarins fyrir innanlandsflugið er orðið mörgum skiljanlegra.
Að sama skapi er mörgum orðin illskiljanlegri rökin fyrir því að þétt byggð í Vatnsmýrinni hljóti að vera í þágu náttúruverndar því menn aki þá skemmri vegalengdir. Auðvitað er það rétt að í lítilli þétt byggðri borg þarf að fara skemmri leiðir en í dreifðri borg.
En að sjálfsögðu skiptir höfuðmáli hvar vinnustaðirnir eru, ekki bara íbúðahverfin. Í því efni þarf að gæta að því að hafa byggðina blandaða, mannabústaðir/vinnustaðir. Eins og sakir standa get ég gengið í mína vinnu, kona min þarf hins vegar að fara 11 kílómetra á sinn vinnustað sem þó er innan borgarmarkanna. Varla kæmu allir þeir sem byggju í Vatnsmýrinni til með að vinna á Landspítala eða í Kvosinni. Sjálfum finnst mér það vera lífsgæði að geta búið dreift, að sem flestir sem þess óska geti haft garða við hús sín og að útvistarsvæði séu mikil. Þá verður það viðfangsefnið - og á því erum við byrjuð að taka, að koma upp öflugum vistvænum almenningssamgöngum. En hvað þetta varðar veit ég að við höfum mismunandi skoðanir og er ekkert rétt eða rangt í því efni.

Kemur þá að þætti Hjálmars Sveinssonar, sem ég hélt að væri með nákvæmari mönnum, fyrrum fréttaskýrandi af Ríkisútvarpinu. Hann skrifar pistil á Eyjuna þar sem hann vitnar í mig og setur innan gæsalappa orð sem ég finn hvergi að ég hafi sagt eða skrifað um stúdentaíbúðir sem „potað" hafi verið niður í Vatnsmýrinni. Staðreyndin er sú að mér finnst vel til fallið að byggja stúdentagarða  sem næst Háskóla Íslands. Ég hef hins vegar verið gagnrýnin á hve þétt er byggt þar og víða annars staðar og hef ég í því samhengi talað um þéttingu byggðar sem „þráhyggjuhugsun." Hvað stúdentagarðana áhrærir er mér sagt að jafnvel hafi staðið til að reisa nýju garðana enn nær Oddagötunni en þó var gert. Hvað sem til er í því þótti mér - og þykir enn - nálægðin of mikil fyrir minn smekk og leyfi ég mér að gagnrýna það.

Hvað varðar áhrif byggingaverktaka á skipulagsmál í borginni fyrr og nú, þá væri verðugt að taka umræðu um það. En framhjá því verður varla horft að hugsanlegur flutningur flugvallarins hefur iðulega verið af hálfu borgaryfirvalda settur í samhengi við hvað byggingarverktakar telji sig geta komið fyrir af byggingarmagni. En gaman væri að heyra frekari útlistanir frá Hjálmari og öðrum ágætum skipuleggjendum í Reykjavík um þetta áhugverða efni.
Pistill Hjálmars Sveinssonar og sá pistill minn sem hann vísar í:
http://blog.pressan.is/hjalmarsveinsson/
https://www.ogmundur.is/is/greinar/meirihlutinn-a-moti-meirihlutanum