Fara í efni

HINIR VAMMLAUSU EÐA BÖRN SÍNS TÍMA?


Gleðilegt er að fylgjast með nokkrum eldri Sjálfstæðismönnum taka út siðferðisþroskann á fullorðinsaldri. Þrír valinkunnir frammámenn Sjálfstæðisflokksins, allir ráherrar í lengri eða skemmri tíma í aðdraganda hrunsins, hafa nú stigið fram með ábendingum og kröfum um að ég segi af mér ráðherraembætti eftir að Hæstiréttur úrskurðaði kosningar til stjórnlagaþings ógildar. Ekki tilgreindu þeir hvort það ætti að vera  vegna pappaskilrúmanna, auðkenna á kjörseðlum eða bresku kjörkassanna.
Forsenda þess að menn biðjist afsökunar, hvað þá að þeir segi af sér embætti, er að þeir finni til sektar. Til hennar finn ég ekki í þeim mæli sem þessir fyrrverandi forkólfar Sjálfstæðisflokksins ætla mér að gera. Það verð ég hreinskilningslega að játa.
Ágengar spurningar leita á hugann. Hefði Þorsteinn Pálsson sagt af sér vegna „sölunnar" á SR mjöl ef hann hefði þá verið búinn að ná þeim siðferðisþroska sem hann nú telur sig hafa náð, Halldór Blöndal og Björn Bjarnason vegna hlutdeildar í fjármálahruninu, eða stuðnings við innrásina í Írak; hefðu þeir sagt af sér ef þeir hefðu verið komnir á núverandi þroskastig?
Þessu getur enginn svarað. Það væri helst að hinir vammlausu veltu sjálfir vöngum yfir þessu, Þorsteinn í Fréttablaðinu, Halldór í Morgunblaðinu og Björn á síðunni sinni. Við bíðum spennt. Allir þessir þrír stjórnmálamenn minna mann á allt það besta í íslenskri stjórnmálasögu síðustu áratugina - eða þannig.
Frægt er þegar Björn Bjarnason, sem þá var dómsmálaráðherra, var veitt áminning fyrir brot á jafnréttislögum og svaraði því til að lögin væru "barn síns tíma".
Kannski eru þessir stjórnmálamenn bara börn síns tíma?
http://eyjan.is/2011/02/01/stjornlagathingskludrid-bjorn-bjarna-segist-umsvifalaust-hafa-sagt-af-ser/
http://www.amx.is/fuglahvisl/16607/
http://www.pressan.is/Frettir/LesaFrett/bjorn-ogmundur-segi-af-ser---eg-hefdi-gert-thad-ef-thetta-kludur-hefdi-gerst-a-minni-radherravakt