Fara í efni

HIÐ VALDSMANNSLEGA GÖNGULAG


Sumir hafa auga fyrir umgjörð. Telja hana jafnvel skipta öllu máli. Innihald blikni í samanburði við vel heppnaða leikmynd. Í því samhengi er næstum brjóstumkennanlegar tilraunir forsvarsmanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að kenna nýja ríkisstjórn við Þingvelli. Fréttamenn voru neyddir til að aka þangað í tíma og ótíma meðan á fundum stóð og dyggustu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum tönnlast á hinni nýju Þingvallastjórn.  Þetta er í og með tilraun til að forðast það heiti sem almenningur gaf stjórninni í upphafi, nefnilega Baugsstjórn.
Lesandi síðunnar vekur athygli á hinum sláandi líku töktum sem "okkar fólk" sýndi við kynningu á sjálfu sér og viðhöfð er í Hvíta húsinu hjá Bush þegar velþóknanlegir gestir hans eru látnir "taka ganginn" með honum. Ég get tekið undir það með Stefáni að leikmyndin er áþekk og vissulega er göngulagið valdsmannslegt.
Eftrifarandi segir Stefán í bréfi sínu: "Þegar Blair og Bush koma saman fram til að verja Íraksstríðið, svo dæmi sé tekið. Þá taka þeir ganginn, eins og sagt er í Ameríku, – ganga ákveðnum skrefum eftir rauðum dregli í takt og stilla sér svo upp við þar til gerð púlt í húsi, sem ber sama nafn og auglýsingastofa sem kom við sögu þegar hugtakið “skítlegt eðli” heyrðist fyrst við Austurvöll fyrir sextán árum. Þeir flytja stutt ávörp um lýðræðislegar skyldur Vesturveldanna, nauðsyn innrásarinnar í Írak, eða minnkandi barnadauða þar í landi, eða tala jafnvel um umbótasinnaðar ríkisstjórnir. Svo svara þeir fyrirframgefnum spurningum og láta sig hverfa.
Allt er þetta undirbúið, jafnvel göngulagið; og þú segir þetta, þá segi ég þetta, og svo fer ég í Kastljósið og þú ferð einn til Ólafs. Leikrit þar og leikrit hér."

HÉR