Fara í efni

HIÐ GLEÐILEGA VIÐ FRÖNSKU VERKFÖLLIN

Ég er staddur í Frakklandi þessa dagana. Sit nokkurra daga fund í Strassborg.

Ég átti í nokkrum erfiðleikum að komast á leiðarenda vegna umfangsmikilla verkfalla í samgöngukerfinu. Kostaði tafir og útgjöld – sem enn eiga eftir að fara vaxandi því enn er ég úti, á leiðinni heim en óvíst hvernig!

Enginn masókisti er ég en hressandi þótti mér engu að síður að vera minntur á mikilvægi starfa sem tekin eru sem gefin þangað til kemur að því að meta þau að verðleikum.

Kannski - og vonandi - er að hefjast tími þar sem hinir undirokuðu reyna að koma af sér okinu sem á þeim hvílir.

Verkföllin eru þannig góðs viti í mínum huga. Blóðið rennur alla vega í æðum þessa fólks. Hefði mátt gera það hér á landi þegar lífeyrisréttur opinberra starfsmanna var skertur hér fyrir tveimur árum. Það muna eflaust fáir enda ekkert andóf, engin mótmæli – ekki einu sinni skrifleg.

Reikna má með því að ekki séu allir sáttir við frönsku verkföllin; að einnig gæti reiði í garð verkfallsfólksins. Það er án efa sagt eiga í fáránlegu andófi gegn Macron forseta og félaga hans í kauphöllinni sem telja eftirlaunaaldur launafólks í Frakkland of rúman.

Og ef að líkum lætur er reiðin mest og gagnrýnin hörðust frá fólki sem aldrei hefur dýft hendinni í kalt vatn, lifir í aðgerðaleysi, kannski á vindsæng eins og fjármálaráðherra Íslands hefur skilgreint ónytjunga úr hópi sem hann nýlega gaf sig út fyrir að þekkja nokkuð til.

Eftirlaunaaldur braskara og stóreignafólks er ekki á sjötugsaldrinum heldur á þrítugsaldrinum – ef þessi hópur þá nokkurn tímann gerði nokkuð sem flokka má sem vinnu. Varla getur það talist vera vinna að tefla kauphallarskák. Þetta gerir vinnandi hluti þjóðarinnar í afþreyingarspilum um jólin. Síðan fer það í vinnu að aflokinni hátíð. 

Það er ekki að undra að þessi fordekraði hluti samfélagsins reiðist því þegar láglauna- og millitekju-Frakkland vill upp á vindsængina þeirra í lok starfsævinnar. Helst vill fólk eiga nokkur ár áður en gengið er fram á grafarbakkann.

En á móti er svo spurt hvað þetta lúna fólk yfirleitt vilji uppá dekk.  

En þangað ætlar það nú samt. Og það er hið gleðilega.