Fara í efni

HETJULEG BARÁTTA VIÐSKIPTARÁÐS?


Ég minnist þess þegar ég einhverju sinni, sem stjórnarmaður í lífeyrissjóði, heimsótti  stjórnendur bankanna sem skráðir eru heimilsfastir á Íslandi. Þetta var nokkru eftir að þeir voru einkavæddir. Ég spurði einn bankastjórann hvort hann sæi fyrir sér samkeppni á milli bankanna í vöxtum; hvort þeir myndu keppast um að laða til sín viðskiptavini með því að bjóða lága vexti. Bankastjórinn hló oní maga.  Aðra eins vitleysu hafði hann aldrei heyrt. Í slíka samkeppni borgaði sig ekki að eyða miklu púðri, sagði hann þegar hann náði andanum á milli hlátursrokanna, bankarnir myndu reyna að laða til sín viðskiptavini með öðrum hætti. Og síðan er það hitt bætti hann íbygginn við,  stóri peningurinn liggur annars staðar, hann liggur í fjárfestingargróða. Með öðrum orðum, braski. Auðvitað liggur stórgróðinn þar.
En þessi gróði er fallvaltur. Og kjölfestu vilja bankarnir því gjarnan hafa með eignum í íbúðum landsmanna. Þess vegna hafa þeir alltaf hugsað Íbúðalánasjóði þegjandi þörfina. Bankarnir kærðu tilvist Íbúðalánasjóðs til dómstóla hins Evrópska efnahagssvæðis, sællar minningar, og það var fyrst eftir að þeirri kæru var synjað að bankarnir lækkuðu vexti sína  til að freista þess að komast yfir húsnæðisviðskiptin.
Síðan hefur verið hamast á Íbúðalánasjóði og þess krafist að starfsemi hans verði skorðin við trog. Af umhyggju fyrir íbúðakaupendum? Nei, af umhyggju fyrir eigendum bankanna sem vilja hagnast á íbúðakaupendum.

Þráhyggjudraugurinn hjá Viðskiptaráði

Allt þetta kom upp í hugann þegar ég las í dag enn einn pistilinn á heimasíðu Viðskiptaráðs þar sem gamalkunnur þráhyggjudraugur hefur vaknað upp. Bölsóttast er yfir því að Íbúðalánasjóður hafi reynt að halda vöxtum  fyrir íbúðakaupendur undir því hávaxtaokri sem bankarnir hafa ætíð viljað tryggja sér: „Það skýtur skökku við að hið opinbera skuli hafa unnið gegn nauðsynlegri hækkun húsnæðisvaxta með því að niðurgreiða almenn íbúðalán í gegnum Íbúðalánasjóð. Þetta hefur átt ríkan þátt í því að spilla fyrir virkni peningastefnunnar undanfarin ár og leitt til þess að stýrivextir hafa orðið mun hærri en ella. Afleiðingin er að skammtímavextir eru mun hærri en þeir hefðu þurft að vera, verðbólga hefur verið yfir þolmörkum um árabil
og þenslan mun meiri en annars hefði verið. Það er því nauðsynlegt að umbreyta Íbúðalánasjóði hið fyrsta."
Sannast sagna er þetta ótrúlega bíræfin texti. Eftir að bankarnir hafa farið offari, eftir að ríkisvaldið hefur farið offari, eftir að stórfyrirtækin mörg hafa farið offari, eftir að milljarðamæringarnir hafa farið offari  og sett efnahag þjóðarinnar á spil þá er stóri bölvaldurinn að mati Viðskiptaráðs, Íbúðalánasjóður! Sjóðurinn sem hefur lánað landsmönnum íbúðalán á vöxtum sem er ívíð lægri en vextir bankanna. Samkvæmt mínum kokkabókum kallast vextir Íbúðalánasjóðs óásættanlegt okur.

Um hvíta hesta og aðra hesta

Í fyrirsögn á heimasíðu Viðskiptaráðs þar sem er að finna bölbænapistilinn um Íbúðalánasjóð er spurt hvort menn telji sjóðinn vera riddara á hvítum hesti. Augljóslega er svo ekki að mati Viðskiptaráðs. En hvers konar riddari skyldi þetta Viðskiptaráð annars vera? Er það yfirleitt að heyja hetjulega baráttu? Ekki þykir mér það. Það er dapurlegt hlutskipti að setja gróðahagsmuni ofar hagsmunum almennings eins og gert er í áralöngu einleti Viðskiptaráðsins gagnvart Íbúðalánasjóði.
Að lokum, hvenær skyldi Viðskiptaráði lærast að ríkið greiðir ekki niður vexti Íbúðalánasjóðs. Sá sjóður á hins vegar aðgang að  fjármagni á tiltölulega hagstæðum kjörum með ríkið sem bakhjarl sinn. Sams konar bakhjarl og bankarnir vilja nú að standi sér að baki í þrengingum þeirra!