Fara í efni

HEIMILIN EIGA AÐ VERA FRIÐHELG


Krafa fólks sem er að missa heimil sín er að þau verði friðhelg, að ekki sé hægt að ganga að þeim. Krafan er: Hlífum heimilunum. Þetta er krafa um mannréttindi. Og það eru mannréttindin sem eiga alltaf að verða okkur efst í huga. Líka mannréttindi þeirra sem verða nú fyrir gagnrýni í þjóðfélaginu vegna tengsla við orsakir hrunsins, beinna eða óbeinna. Mótmæli í þjóðfélaginu á ekki að kæfa. Mótmæli eru réttmæt. En spurnnigin er hvar og hvernig þessi mótmæli eru í frammi höfð. Nú berast fréttir af mótmælum við heimili fólks. Þessu vil ég andæfa.
Hafa ber í huga  gamla vísdómsreglu: Það sem þér viljið að aðrir gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra. Og þá væntanlega einnig öfugt: Það sem þér viljið að aðrir láti ógjört gagnvart yður skuluð þér og láta ógjört gagnvart þeim: Hlífum heimilunum!