Fara í efni

Heilbrigðisútgjöld heimilanna margfaldast.

Birtist í Mbl
Annað veifið eru birtar tölur sem sýna þróun heilbrigðisútgjalda heimila sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Þessar tölur sýna þróunina í grófum dráttum en eru engu að síður harla ónákvæmar. Til þess að fá glögga mynd af raunverulegum kostnaði heimilanna ákvað BSRB að fylgja eftir sjö einstaklingum sem eiga við sjúkdóma að stríða. Þessu fólki yrði fylgt eftir í meðferð í eitt ár, kannaður yrði kostnaður við að leita læknis, greiða fyrir röntgenmyndir og afla lyfja. Haldið yrði til haga öllum þessum kostnaði yfir árið. Kostnaður við sömu eða sambærilega meðferð yrði skoðaður á nokkurra ára bili til þess að sjá hver þróunin væri. Árin sem urðu fyrir valinu voru 1990, 1996 og 2001. Mikil áhersla var lögð á að tryggja vönduð vinnubrögð og að dæmin og útreikningarnir gæfu rétta mynd af því hvernig kostnaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur þróast undangenginn áratug. Verðlagstölur fyrri ára voru færðar yfir á verðlag ársins 2001 til að gefa raunsanna mynd af þróuninni.

Raunsönn dæmi - beinharðir peningar.

Niðurstaðan var mjög afgerandi. Í öllum tilvikum hafði kostnaður hins sjúka stóraukist, í sumum tilvikum hafði hann margfaldast. Þannig hafði kostnaður einstaklings sem þjáist af lungnaþemdu og öndunarfærasýkingum hækkað úr 7.632 krónum árið 1990 í 69.702 kr. árið 2001. Í öðru sjúkdómstilfellinu var um að ræða einstakling með fjölbreytt vandamál, hjaratabilun, sykursýki og fl. Hér hafði kostnaðurinn hækkað úr 12.555 kr. í 37.825 kr. Í þriðja dæminu var um að ræða kransæðasjúkdóm. Kostnaðarhlutdeild þessa sjúklings hafði hækkað úr 12.687 kr. í 41.956 kr. Í fjórða dæminu var barn með eyrnabólgu. Árið 1990 greiddu foreldrarnir 17.524 krónur en í ár nemur greiðslan 30.539 kr. og enn skal ítrekað að krónurnar hafa verið færðar til sama verðlags. Þunglyndissjúklingur sem var athugaður borgaði 23.697 kr. árið 1990 en 72.055 kr. í ár. Útgjöld ofnæmissjúklings höfðu hækkað úr 19.481 krónur í 59.792 kr og útgjöld gigtarsjúklings höfðu aukist að raunvirði um 20 þúsund krónur, úr 29.469 í 49.032 krónur.

Sjúklingar borga meira.

Sjúklingar segjast sumir greiða miklu meira en þær tölur sem hér eru nefndar gefa til kynna. Ekki er ólíklegt að svo sé. Í fyrsta lagi er lyfjakostnaðurinn í þessum dæmum sá allra lægsti sem er að finna á markaði. Í ljós kom að mikill verðmunur er á lyfjum annars vegar á milli einstakra dreifingaraðila og hins vegar á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Í öðru lagi eru til miklu alvarlegri sjúkdómstilfelli en þau sem tekin voru til athugunar og þar af leiðandi meiri tilkostnaður. Það sem máli skiptir hins vegar er að fá góða vísbendingu um hvert stefnir, hvernig þróunin er með tilliti til útgjalda heimilanna. Auðvitað ætti það að verða okkur öllum tilefni til að staldra við þegar þessar niðurstöður liggja fyrir. Þær sýna að kostnaðarhlutdeild sjúklinga hefur aukist um mörg hundruð prósent.

Í könnun sem gerð var á vegum landlæknisembættisins fyrir fáeinum árum kom í ljós að efnalítið fólk var farið að veigra sér við að leita læknis einfaldlega vegna þess að það hafði ekki ráð á þjónustunni. Einnig hafa borist fregnir af því að fólk komi í apótek til þess að kaupa lyf samkvæmt lyfseðli en snúi frá þegar það heyri hver kostnaðurinn er. Íslendingar vilja ekki láta mismuna fólki í heilbrigðisþjónustunni. Það hefur margoft komið fram.

Íslendingar vilja jöfnuð.

Í viðamikilli könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem BSRB lét gera haustið 1998 um viðhorf Íslendinga til velferðarþjónustunnar kom í ljós að yfir 70% landsmanna voru meira að segja reiðubúnir að greiða hærri skatta til þess að styrkja þessa þjónustu. Við gerum okkur nefnilega grein fyrir því að ef við á annað borð viljum hafa þessa þjónustu þá þarf að sjálfsögðu að standa straum af kostnaðinum við hana. Það er hægt að gera á tvennan hátt. Annars vegar með sköttum, hins vegar með notendagjöldum. Nú hefur verið sýnt fram á að notendagjöldin hafa stóraukist með þeim afleiðingum að mismununar er farið að gæta í heilbrigðisþjónustunni. Við því verður að bregðast og er af því tilefni skorað á stjórnvöld að hefjast handa um að draga úr kostnaðarhlutdeild sjúklinga, helst afnema hana með öllu.