Fara í efni

Heilbrigðismál eru kjaramál

Birtist í Mbl
Af hálfu BSRB hefur jafnan verið lögð mjög þung áhersla á mikilvægi þess að styrkja velferðarþjónustuna. Á það hefur verið bent að vel rekin velferðarþjónusta sé forsenda fyrir réttlátu samfélagi og skipti það miklu í kjaralegu tilliti að vel takist til um uppbyggingu hennar. Fari svo að gerðar verði kerfisbreytingar í átt til einkavæðingar til dæmis innan heilbrigðisþjónustunnar eins og margir fjármálamenn hafa gert kröfu um mun það tvímælalaust leiða til aukinnar gjaldtöku og þar með kjararýrnunar hjá þeim sem á þessari þjónustu þurfa að halda. En að öðrum þáttum er einnig að hyggja. Fyrir skattborgarann skiptir það sköpum að velferðarþjónustan sé rekin á hagkvæman hátt. Heilbrigðismál eru því kjaramál hvernig sem á málin er litið.

Í ljósi þessa er vert að gaumgæfa nýútkomna skýrslu frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni. Þar er að finna mjög athyglisverðan samanburð á útgjöldum til heilbrigðismála í fjölda aðildarríkja OECD. Niðurstöðurnar koma heim og saman við niðurstöður fyrri ára sem jafnan hafa sýnt að útgjöld í bandaríska heilbrigðiskerfinu eru hlutfallslega miklu meiri en annars staðar eða um 15% af landsframleiðslu miðað við um 10% á Norðurlöndunum. Ef þessar stærðir eru skoðaðar í dollurum og krónum kemur í ljós að tilkostnaðurinn er helmingi meiri í Bandaríkjunum en annars staðar. Þetta kemur fram á meðfylgjandi töflu úr nýútkominni skýrslu OECD.

Einkarekið kerfi dýrt, óhagkvæmt og ranglátt

Að sjálfsögðu liggur næst við að spyrja hvort Bandaríkjamenn séu ekki einmitt öfundsverðir af því hve mikið fé rennur til heilbrigðisþjónustunnar. Svo væri vissulega ef fjármunirnir nýttust vel. Sú er ekki raunin. Þannig gleypa tryggingafélögin upp óheyrilegar fjársummur og að sjálfsögðu heimta hlutabréfaeigendur sitt. Í mjög fróðlegri grein sem Kristján G. Arngrímsson blaðamaður skrifar í Morgunblaðið í apríl síðastliðnum um rannsóknarskýrslu sem Parkland-stofnunin við háskólann í Alberta gerði á heilbrigðiskerfinu kom fram að algengt væri að fjárfestar við einkareknar heilbrigðisstofnanir gerðu mjög háar kröfur um hagnað og voru 15% nefnd í því sambandi. Þetta gefur vísbendingu um stærðagráðurnar í því fjármagni sem út úr kerfinu rennur í vasa handhafa hlutabréfanna. Og hvað tryggingafélögin áhrærir má meðal annars vitna í skýrslu sem bandaríska ríkisbókhaldið (US General Accounting Office) gerði og greint var frá í októberhefti Newsweek árið 1993 en þar kemur fram það álit að spara mætti þrjá milljarða dollara á ári hverju með því að láta eitt opinbert tryggingakerfi annast greiðslur í stað þess að þær væru á hendi mörg hundruð tryggingafyrirtækja. Þetta lýtur einvörðungu að skrifstofuhaldinu og er þá ótalinn tilkostnaðurinn við lögfræðiþjónustu sem er geysilega fyrirferðamikil og kotnaðarsöm í bandaríska heilbrigðiskerfinu.

Að græða peninga eða græða fólk

Að mínum dómi er þó alvarlegast af öllu sú mismunun sem fylgir einkavæðingunni. Á Norðurlöndum er fjármálamarkaðurinn að byrja að teygja sig inn eftir spítalagöngunum og afleiðingarnar eru þegar að koma í ljós. Í mars síðastliðum birtist mjög athyglisverð grein í norska blaðinu Dagbladet eftir norskan yfirlækni, Dag Johansen og prófessor í læknisfræði Mads Gilbert að nafni. Þeir vitna meðal annars í könnun sem birst hafði í tímariti norsku læknasamtakanna réttu ári áður. Þar kom fram að fjórðungur aðspurðra deildarstjóra við norsk sjúkrahús teldu að nýr hugsunarháttur hefði leitt til þess að meðhöndlun „þungra“ sjúklinga með erfiða sjúkdóma væri látin víkja fyrir „ábatasamari“ sjúklingum sem heimild væri fyrir að krefja um borgun. Í greininni segir enn fremur á þessa leið: Reynslan sýnir ótvírætt að mjög fljótlega eftir að markaðslögmálin hafa verið virkjuð innan heilbrigðisþjónustunnar taka þau völdin. Fjárhagslegur ávinningur vegur þá þyngra en almannahagur og læknisfræðileg sjónarmið víkja fyrir peningalegum. Með öðrum orðum einkareksturinn byggir á því að græða peninga, almannaheilbrigðisþjónustan þjónar fólki, hún græðir fólk.

Heilbrigðisþjónusta í þágu allra.

Auðvitað kemur öllum við hvernig velferðarþjónustan í landinu er skipulögð og það skiptir sköpum jafnt fyrir notendur sem skattborgara hvernig tekst til. Af hálfu launafólks hefur BSRB beitt sér af alefli til varnar og sóknar velferðarþjónustunni. Á vegum samtakanna var gerð ítarlegasta könnun sem framkvæmd hefur verið til þessa um afstöðu Íslendinga til skipulags og fjármögnunar velferðarþjónustunnar. Þar kom fram yfirgnæfandi meirihlutavilji fyrir samfélagslega rekinni þjónustu. Menn höfnuðu hvers kyns mismunun og gjaldtöku. Í kjölfar þessarar könnunar efndi BSRB til umræðufunda um leiðir til að bæta velferðarþjónustuna. Samtökin hafa boðið til samstarfs við stjórnvöld um leiðir að þessu marki og nú síðast hefur slíku erindi verið komið á framfæri við heilbrigðisráherra. Eins og sjá má af framangreindum dæmum er mikið í húfi að okkur takist að standast atlögu gróðaaflanna að heilbrigðisþjónustunni og byggja hana þess í stað upp á samfélagslegum grunni til hagsbóta fyrir þjóðfélagið allt.