Fara í efni

HEILBRIGÐISKERFIÐ Á AÐ ÞRÓA YFIRVEGAÐ

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í Morgunblaðinu 19.02.10.
Hér á landi hafa verið skýrar markalínur á milli almannaþjónustu og einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu. Annaðhvort hafa sérfræðingar og aðrir starfsmenn verið á samningi við ríkið eða ekki. Þessi landamæri kunna nú að raskast.
Í tengslum við áform um að reisa einkasjúkrahús á Íslandi, eins og Róbert Wessman og félagar hafa uppi áform um, er talað um að flytja inn sérfræðinga til landsins og jafnframt nýta innlenda lækna og annað starfsfólk. Að sögn eiga að vera þarna einhver skil á milli. Þá hefur verið talað um að aðgreina innflutta sjúklinga og innlenda.
Að mínu mati dugir hér ekki að spyrja um ásetning manna, hversu góður sem hann kann að vera, hinn einkavæddi veruleiki er ágengari en svo. Þess vegna þarf að hyggja að hugsanlegum kerfisbreytingum sem kunna að verða af völdum einkavæðingar jafnvel þótt hún komi í smáskömmtum í upphafi. Það er einu sinni svo þegar vanhugsuð viðskiptahugmynd gengur ekki upp, að þá er venjan að leita ásjár skattborgarans, ekki síst þegar störf eru í húfi. Því hljótum við að spyrja um líklega þróun áður en störfin verða til.
Spyrja þarf hvort ekki sé líklegt að íslenskir sjúklingar muni leita eftir þjónustu á nýjum einkaspítölum og ætlast þá jafnframt til þess að hið opinbera greiði kostnaðinn. Þá er mjög líklegt að sjálfstætt starfandi læknar muni gjarnan vilja gera það tvennt í senn að starfa á einkaspítala og jafnframt fá greitt frá Sjúkratryggingum. Þar með myndi riðlast sú sátt sem hér hefur verið við lýði í heilbrigðisþjónustunni um þá blöndu sem verið hefur á milli alamannarekstrar og einkarekstrar. Í framhaldinu þarf að velta fyrir sér hverjar afleiðingarnar yrðu fyrir sjálfstætt starfandi lækna. Vasar skattborgarans eru ekki óendanlega djúpir. Komi ný einkarekin sjúkrahús til með að soga til sín fjármuni úr Almannatryggingum verður minna til skiptanna fyrir hinn almenna sjálfstætt starfandi lækni. Það gefur augaleið.
Hugsum þessi mál til enda. Grundvallarbreytingar í heilbrigðiskerfinu eru afdrifaríkar fyrir þá sem þjónustunnar eiga að njóta, fyrir starfsfólk og skattgreiðendur.