Fara í efni

HEILBRIGÐI OG EVRÓPUSAMBANDIÐ: BOLKESTEIN GENGUR AFTUR


Mánudag og þriðjudag hef ég setið stjórnarfund EPSU, Samtaka launafólks innan almannaþjónustunnar á hinu Evrópska efnahagssvæði. Fundurinn var mjög fróðlegur. Sérstaklega athyglisverð var umræða um síðasta útspil Stjórnarnefndar Evrópusambandsins til að markaðsvæða velferðarþjónustuna. Oft hefur verið fjallað um þetta efni hér á síðunni allar götur frá því út var gefin um síðustu aldamót svokölluð Lissabon áætlun. Hún gengur út að gera Evrópusambandið að "kröftugustu markaðseiningu" í heiminum á komandi árum. Verkalýðshreyfingin í Evrópu hefur hvatt til þess að á þeirri vegferð eyðileggi menn ekki það sem hefur áunnist með uppbyggingu velferðarkerfis í ríkjum Evrópu. Því miður hafa fulltrúar markaðsaflanna haft undirtökin í stefnumótun á vegum Evrópusambandsins til að ná þessu markmiði. Það hefur komið í hlut verkalýðshreyfingarinnar og félagslega þenkjandi stjórnmálaflokka að bregðast við tillögum sem frá Stjórnarnefndinni hafa komið og reyna þannig að beina þróuninni inn í félagslega uppbyggilegan farveg.

Bolkestein-draugurinn endurvakinn

Slagurinn stóð framan af um tillögur sem gengu út á að leggja allt það sem kalla má þjónustu inn á markaðstorgið og láta hana þar lúta "samkeppnisreglum." Alræmd var svokölluð Bolkestein-nefnd, kennd við formann sinn, en hún reyndist mjög harðdrægur málssvari markaðssinna. Þótti mörgum samhljómur með Bolkestein og Frankenstein, hinn fyrrnefndi hafi ógnað lífi verlferðarkerfana, lífið hefði verið sogið úr þeim – að hætti gamla Frankensteins -  ef Bolkestein hefði náð sínu fram. Á þessum tíma og fram á þennan dag, hefur verkalýðshreyfingin innan hins Evrópska efnahagssvæðis reynt að knýja fram tilskipun sem dragi upp landamæri á milli þess annars vegar, sem sæmileg samstaða er um að lúti lögmálum markaðarins og hins vegar þjónustu sem ekki eigi að líta á sem viðskiptaþjónustu: Heilbrigðiskerfið skuli þannig ekki ætlað  til að skapa fjárfestum arð heldur til að lækna fólk.
Í upprunalegum tillögum Bolkestein-nefndarinnar var ákvæði sem bannaði einstökum aðildarríkjum Evrópusambandsins að setja heilbrigðisstofnunum, sem njóta opinbers stuðnings, þær skorður að þær settu allar umframtekjur inn í eigin rekstur en greiddu ekki arð.
Þessu tókst að hnekkja.
Fram til þessa hefur Stjórnarnefnd Evrópusambandsins ekki viljað fallast á "landamæratilskipun" til varnar velferðarþjónustunni en reynir nú allt hvað hún getur að tala fyrir nýrri tilskipun um heilbrigðisþjónustuna sérstaklega. Og viti menn í þeim drögum sem fyrir liggja er Bolkkestein-drauginn uppvakinn. Þarna er nefnilega að finna ákvæði um að einstökum ríkjum eigi ekki að vera heimilt að setja einkaspítölum sem njóta opinbers stuðnings neinar skorður!

Handabakavinnubrögð til útflutnings?

 Í Fréttablaðinu birtist í lok síðustu viku all-ítarlegt viðtal við Guðlaug Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra. Hann er sem kunnugt er ákafur stuðningsmaður einkarekins heilbrigðiskerfis. Í viðtalinu áréttaði hann þennan áhuga sinn. Vill meira að segjast leggjast í útrás. Ég leyfi mér hins vegar að spyrja: Væri ekki nær að Guðlaugur Þór reyndi að byrja á því að koma íslenska heilbrigðiskerfinu í lag áður en hann hyggur á landvinninga? Heilbrigðisráðherrann ætlar til dæmis Landspítsala-háskólasjúkrahúsi að leggja af stað inn í nýtt ár með fjárframlag sem er að minnsta kosti einum milljarði minna en dugir til rekstursins til þess eins að halda í horfunu! Hvað ætlar heilbrigðisráherra að flytja út????: Handabakavinnubrögð af þessu tagi?